-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Stórsýning sunnlenskra hestamanna á Hellu í kvöld

Stórsýning sunnlenskra hestamanna á Hellu í kvöld

0
Stórsýning sunnlenskra hestamanna á Hellu í kvöld

Í dag, fimmtudaginn 13. apríl, stendur Rangárhöllin á Hellu fyrir skemmtilegri og fjölbreyttri hestasýningu. Á sýningunni verða m.a. hátt dæmdir stóðhestar og hryssur, afkvæmahestar, ræktunarbússýningar og fleira sem gleður augað.

Einnig koma fram bræður frá Hellu. Þar er um að ræða hinn hátt dæmda Þóroddsson Prins frá Hellu. Sá er með háan kynbótadóm sem hljóðar upp á 8,39 í aðaleinkunn og hefur hæst farið í 8,63 í A-flokk auk þess að standa sig vel í keppni í fimmgang. Sammæðra honum er Mökkur frá Hellu undan Mídasi frá Kaldbak. Móðir þessara hesta er Perla frá Árbæ sem er undan Baldri frá Bakka. Áhugavert verður að sjá þessa bræður dansa um gólfið. Tveir heimsmeistarar í tölti sem eiga það sameiginlegt að vera úr Skaftafellssýslu munu leika listir sínar. Þetta eru þau Kristín Lárusdóttir sem er ríkjandi heimsmeistari í tölti frá því í HM 2015 í Danmörku og Vignir Siggeirsson sem varð heimsmeistari í tölti 1997 í Seljjord í Noregi. Gaman verður að sjá þessa mögnuðu Skaftfellinga saman í atriði. Sigurvegarar parafimi frá því í Suðurlandsdeildinni í vetur koma fram með skemmtileg og fjölbreytt atriði. Ásamt mörgum fleiri atriðum.

Ungir sem aldnir eru hvattir til að gera sér ferð á þessa spennandi sýningu og skemmta sér með hestamönnum. Húsið verður opnað kl. 19:00 og sýningin hefst kl. 20:00. Forsala miða er á Tix.is. Miðaverð er 2.500 krónur og verða miðar seldir við hurð.