0 C
Selfoss
Home Fréttir Áfengi með mjólkinni?

Áfengi með mjólkinni?

0
Áfengi með mjólkinni?
Fjölbrautaskóli Suðurlands. Ljósmynd: ÖG.

Að undanförnu hefur mikil umræða átt sér stað um frumvarp til laga um rýmkun á smásölu áfengis og sölu þess í matvöruverslunum.

Rökin hafa verið „mannréttindi, sanngirni, frelsi..“ og önnur eins slagorð.

Okkar fyrstu viðbrögð eru, „Bíddu er erfitt að nálgast áfengi eins og formið er í dag? Opnunartími vínbúða hefur aukist og þeim fjölgað, er það ekki nóg?“

Við teljum að þær orðalagsbreytingar í Frumvarpi til laga sem lagt hefur verið fram stangist á við stefnu stjórnvalda um forvarnir þ.m.t. mennta- og menningarmálaráðuneytis og heilbrigðis- og velferðarráðuneytis.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því að fyrstu rannsóknir um neysluhegðun ungmenna hófs hefur margt breyst.

Hlutfall framhaldsskólanema á Íslandi sem hafa orðið ölvuð einu sinni eða oftar síðastliðna 30 daga, árin 2000, 2004, 2007, 2010, 2013 og 2016, greint eftir aldri.

Skv. rannsóknum sem Rannsóknir og greining hafa stundað undanfarna áratugi hefur tekist með mikilli vinnu og skipulagi að draga verulega úr neyslu ungmenna bæði á áfengi og tóbaki.

Ég vísa hér í tilvísun á vef ICSRA varðandi þann árangur sem náðst hefur:

Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað varðar möguleika í forvarnarstarfi. Sökum smæðar þjóðfélagsins eru Íslendingar fljótari til en margar stærri þjóðir þar sem hægt er að fara „heilan hring“ með módelið á aðeins einu ári. Þetta felur í sér að unnt er að mæla stöðuna, taka ákvörðun um inngrip, beita því og mæla síðan árangurinn allt á einu almanaksári. Afraksturinn af þessari vinnu hefur ekki leynt sér á Íslandi en t.a.m. hefur áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna dregist margfalt saman frá upphafi mælinga árið 1992. (http://www.rannsoknir.is/is/islenska-modelid/).

Framhaldsskólar hafa samhliða þessum rannsóknum unnið skipulega að breytingum á viðhorfum ungmenna til skemmtanahalds án áfengis í mörgum framhaldsskólum. Stofnaðir hafa verið edrúpottar, áfengismælar nýttir í tengslum við skemmtanir, breyting verið gerð á tímasetningum og tíðni viðburða þar sem „ætla mætti“ að það teldist við hæfi að hafa áfengi um hönd. Skólar hafa tekið einarða afstöðu gegn sk. bjórkvöldum og ferðum sem hópar nemenda framhaldsskólanna hafa farið án samþykkis skólayfirvalda.

Árið 2009 hófst verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli, samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar/Landlæknis og framhaldsskólanna um heildstæða heilsu- og forvarnarstefnu í framhaldsskólum. Nánast allir framhaldsskólar landsins eru þátttakendur í verkefninu. Afrakstur þess er jákvæður og má þar ekki síst þakka mikilli áherslu á forvarnir á neyslu áfengis og tóbaks m.a. breytingum á reglum um skemmtanahald.

Árið 2015 stóðu framhaldsskólar saman að gerð forvarnarstefnu og er hana að finna á eftirfarandi slóð : http://www.fsu.is/static/file/pdf/endurskodudforvarnarstefnajuni2014.pdf.

Þarna er lögð sérstök áhersla á að draga úr neyslu áfengis og tóbaks.

Með aukinni smásölu eykst aðgengi að áfengi og það er alveg ljóst í okkar huga að innan fárra missera mun eftirlit kaupmanna slakna gagnvart sölu áfengis til ungmenna undir 20 ára aldri.

Að lokum bendum við á að nágranna þjóðir (Evrópulönd og Norðurlönd) horfa til Íslands og þess árangurs sem áunnist hefur hér á landi í minnkandi áfengisneyslu ungmenna en þar er sala leyfð í smásölu.

Við teljum að með auknu aðgengi og minna eftirliti muni neysla ungmenna aukast með alvarlegum afleiðingum bæði hvað varðar aukinn heilsuvanda sem og fjárútlát hins opinbera.

Selfossi 27. mars 2017

Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari FSu
Þórarinn Ingólfsson aðstoðarskólameistari
Guðbjörg Grímsdóttir forvarnarfulltrúi