11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Reyndi ölvaður að komast undan á hlaupum

Reyndi ölvaður að komast undan á hlaupum

0
Reyndi ölvaður að komast undan á hlaupum

Um klukkan 20 á föstudag barst lögreglu tilkynning um bifreið á leið vestur eftir þjóðvegi 1 frá Höfn og að í henni væru fimm menn, allir ölvaðir. Lögreglumenn á Höfn, Kirkjubæjarklaustri, Hvolsvelli og Selfossi sinntu verkefninu. Tilkynningunni fylgdi að einn mannanna hefði sést veifa rafbyssu á Höfn. Þegar lögreglumenn sáu til bifreiðarinnar hófu þeir eftirför en ökumaður sinnti ekki fyrirmælum um að stöðva en reyndi að komast undan með því að beygja inn í húsagötu í Vík en þar komst hann ekki hjá því að stöðva en þá reyndi hann að komast undan á hlaupum en var yfirbugaður fljótt. Hann var fluttur í fangageymslu á Selfossi og yfirheyrður þegar af honum var runnið. Í bifreiðinni fannst rafbyssa sem var í vörslu eins farþegans. Málið er í rannsókn vegna meints ölvunar- og fíkniefnaaksturs, vopnalögum og að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.

Lögregla var kölluð um klukkan hálf eitt aðfaranótt sunnudags í heimahús í Þorlákshöfn vegna gestkomandi manns sem þar hafði ærst og efnt til slagsmála fyrir utan hús. Þegar lögreglumenn komu á staðinn lágu menn yfir honum og héldu. Lögreglumenn voru að ræða við manninn og róa þegar hann fyrirvaralaust sparkaði í andlit og fót eins lögreglumannsins. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu og yfirheyrður. Málið mun verða sent til Héraðssaksóknara sem fer með rannsókn mála er varða ofbeldi gagnvart opinberum starfsmönnum.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.