6 C
Selfoss

Blómleg starfsemi Fræðslunetsins á Hvolsvelli

Vinsælast

Við erum svo heppin að á Hvolsvelli er afar góð aðstaða fyrir fullorðið fólk til að stunda nám af ýmsu tagi. Árið 2010 hóf Fræðslunetið formlega fasta starfssemi í húsnæði Tónlistarskóla Rangæinga að Vallarbraut 16. Þar er skrifstofa, þar sem undirrituð hefur starfsaðstöðu og rúmgóð og björt kennslustofa sem nýtt er til kennslu, próftöku og fundahalda.

Fjarkennslu vex fiskur um hrygg

Í vetur hefur starfsemin á Hvolsvelli verið einkar blómleg. Boðið hefur verið upp á nám af ýmsu tagi, bæði í stað- og fjarkennslu. Nú stunda þrír námsmenn nám í svæðisleiðsögn og sex í skrifstofuskóla. Að auki stunda nokkrir nám á leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú, á félagsliðabrú og í Menntastoðum sem er nám til undirbúnings náms á háskólabrú. Námið er kennt í fjarkennslu en það gefur fólki á fámennari stöðum tækifæri til að stunda formlegt nám í heimabyggð. Nám sem veitir fólki ákveðin starfsréttindi og er mikilvægt til að efla mannauðinn á svæðinu. Hér stunda einnig nokkrir háskólanemar nám sem nýta sér aðstöðuna.

Nám fyrir fyrirtæki

Á vorönn er 60 stunda námskeið í meðferð matvæla haldið sérstaklega fyrir SS og Reykjagarð. Það er einkar ánægjulegt að eiga gott samstarf við fyrirtæki á svæðinu og mætti sá þáttur í starfseminni eflast enn frekar. Fyrirtækin geta nýtt sér starfsmenntasjóði til að standa straum af kostnaði við námskeiðin. Starfsfólk Fræðslunetsins hefur farið í fjölda fyrirtækja á Suðurlandi í því skyni að kynna Áttina (www.attin.is) sem er vefur þar sem fyrirtæki geta með auðveldum hætti sótt um styrki til hinna ýmsu starfsmenntasjóða.

Íslenskunámskeið fyrir útlendinga

Íslenskunámskeið eru mikilvægur liður í starfsemi Fræðslunetsins og nýverið lauk tíu manna hópur 60 stunda námskeiði á Hvolsvelli en á vorönn stunda hátt á annað hundrað útlendingar íslenskunám hjá Fræðslunetinu víðs vegar um Suðurland. Hægt er að bjóða upp á námskeið inn á vinnustöðum og geta þau námskeið verið starfstengd. Allir útlendingar sem náð hafa góðum tökum á íslenskunni eru sammála um að það sé algjör lykill að virkri þátttöku í samfélaginu og rjúfi félagslega einangrun.

Fjarkinn, sérsniðin námskeið fyrir ferðaþjónustufyrirtæki

Fjarkanámskeiðið „Meðferð matvæla, ofnæmi og óþol“ var haldið á Hvolsvelli í síðustu viku. Fjarkinn saman stendur af fjórum gagnlegum námskeiðum sem snerta hin ýmsu svið ferðaþjónustunnar. Þau eru þróuð hjá Fræðslunetinu og er þeim ætlað að svara að hluta til þörfum ferðaþjónustunnar fyrir aukna fagþekkingu. Það er von okkar að hægt verið að halda námskeiðin sem víðast um Suðurland. Við erum nú þegar farin að skipuleggja námsframboð haustannar. Ég hvet einstaklinga og fyrirtæki til að kynna sér málið á vefnum okkar: www.fraedslunet.is.

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, verkefnastjóri Fræðslunetsins á Hvolsvelli.

Nýjar fréttir