1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Bréf úr Flóahreppi

Bréf úr Flóahreppi

0
Bréf úr Flóahreppi
Margrét Jónsdóttir sveitarstjórnarmaður í Flóahreppi.
Margrét Jónsdóttir.
Margrét Jónsdóttir.

Árið 2006 sameinuðust þrír hreppar í Flóanum í eitt sveitarfélag og búa nú tæplega 650 manns í Flóahreppi sem þá varð til. Þetta telst nú ekki mjög fjölmennt og sveitarfélagið nær ekki yfir stórt svæði, en telst þó vera töluvert þéttbýlt dreifbýlissveitarfélag.

Frá því fyrsta hef ég leitast við að líta á Flóahrepp sem eina heild, hef í huga mér þurrkað út gömlu hreppamörkin. Mér hefur þótt mjög gaman að kynnast fólki í allri sveitinni betur og hef mikla ánægju af að starfa með því að málefnum samfélagsins. Ég fagnaði mjög stofnun Flóaskóla árið 2004 og hef frá upphafi átt börn í skólanum og í leikskólanum í nokkur ár og krakkarnir eiga vini út um alla sveit og þau líta á Flóahrepp sem eina heild. Nú er starfandi eitt ungmennafélag í Flóahreppi, unga fólkið steig þetta góða skref fyrir rúmlega ári síðan og kvenfélögin eiga með sér gott samstarf sem hefur skilað miklu til samfélagsins. Ýmis félög tengd búskap eru starfandi og einhverjar þreifingar eru í gangi með sameiningar, þó þar gangi á ýmsu og fólk frekar hikandi.

Á árinu 2015 var Flóahreppur rekinn með 12 milljóna króna halla og ekki er komin niðurstaða fyrir árið 2016, en vonandi lítur það betur út en árið á undan. Á haustdögum 2016 þegar sveitarstjórn vann að fjárhagsáætlun fyrir Flóahrepp fyrir árið 2017 var ljóst að reksturinn er enn mjög þröngur. Eftir mikla yfirlegu var niðurstaða áætlunarinnar um 80.000 kr. í hagnað. Tap á rekstri eða rekstur með litlum eða engum hagnaði er engan veginn ásættanleg niðurstaða og ljóst að horfa verður á alla þætti rekstrar Flóahrepps til sparnaðar, um auknar álögur er ekki að ræða. Lítið er hægt að hreyfa við rekstri skóla og leikskóla, laun eru stærsti útgjaldaliðurinn þar og launahækkanir ráðum við ekki við. Þá þarf að líta til annarra átta. Hér eru þrjú félagsheimili, eitt í hverjum hinna gömlu hreppa. Þingborg er stærsta húsið og það hús sem er í mestri notkun. Þar er skrifstofa Flóahrepps og þar eru skólabörnin og leikskólabörnin í íþróttum og aðstaða öll ágæt. Þjórsárver er að mestu leyti komið undir Flóaskóla og þar er félagsmiðstöð fyrir unga fólkið og svo er það Félagslundur. Hann missti hlutverk sitt sem hluti af skóla þegar Gaulverjaskóli var lagður niður árið 2004 og er ekki eins mikið notaður og hin húsin, raunar aðallega af kvenfélagskonum í Kvf. Gaulverjabæjarhrepps og fyrir glímuæfingar hjá Umf. Þjótanda, önnur útleiga er til annarra hluta til aðila bæði innan og utan sveitar.

Það er eðlilegt að sveitarstjórn velti því fyrir sér hvort hægt sé að losa hreppinn undan rekstri Félagslundar hvort sem er með sölu eða leigu. Það eru greiddar margar milljónir með húsinu á hverju ári og þegar horfa þarf í hverja krónu er ekki undan því vikist að líta til þessa möguleika, annað væri óábyrgt. Á fundi sveitarstjórnar í október var samþykkt að kanna með sölu á Félagslundi, ekkert var ákveðið í þessum efnum og húsið ekki sett á sölu, einungis átti að kanna málið. Kvf. Gaulverjabæjarhrepps er meðeigandi og ekkert gert án þess að tala við félagið. Mótmælaalda reis gegn þessum hugmyndum og ég er alls ekki hissa á því, ef af verður er þetta töluverð breyting. En þó niðurstaðan verði sú að selja húsið eða leigja þá fer það ekki neitt, það verður ekki flutt í burtu og þetta getur opnað ný tækifæri og á eitthvað nýtt. Ef við þyrftum ekki að hugsa um kostnað við rekstur Félagslundar og ættum næga peninga til að reka það gætum við átt það áfram, en það er bara ekki svo.

Í síðasta mánuði fór fram undirskriftasöfnun í sveitinni þar sem því var mótmælt að selja ætti Félagslund. Allt gott um það að segja, ég fagna því að fólk segi hug sinn til málefna er varða sveitarfélagið. En það verður að vera gert með málefnalegum hætti. Bréf sem fylgdi með undirskriftunum ritað af Lilju M. Gísladóttur í Króki fannst mér á köflum ekki vera mjög málefnalegt, þar er blandað inn óskyldum hlutum, en Lilja nefnir þar að fyrirhuguð sala á húsum í Brandshúsum hafi ekki verið sett fram með lögformlegum hætti, sem er fjarri öllum sanni. Eins telur Lilja upp að ekki hafi nú allir viljað skrifa undir og tilgreinir ástæður fyrir því og m.a. að þrír einstaklingar vilji selja Félagslund og þar af séu tveir á heimili sveitarstjórnarmanns, það þarf ekki lengi að hugsa til að sjá að þarna nafngreinir hún nánast mig og minn eiginmann og hlýt ég að gera athugasemd við þessi vinnubrögð.

Það er ekkert sérstakt áhugamál hjá mér að selja Félagslund eða aðrar eignir hreppsins, það er einfaldlega sú staða hjá sveitarfélaginu að það verður að losa sig undan rekstri eigna sem það er að greiða mikla peninga með. Það væri ekki ábyrgt af sveitarstjórn að skoða ekki þennan möguleika.

Mér finnst það mikið fagnaðarefni að fólk skuli segja sína skoðun út fyrir eldhúsborðið heima hjá sér og ég kveinka mér alls ekki undan gagnrýni, ég get alveg setið undir skömmum um mín störf, ef það er gert með málefnalegum hætti. Ég vissi að ég var ekki í neinni vinsældakosningu með því að bjóða fram krafta mína í sveitarstjórn.

Margrét Jónsdóttir sveitarstjórnarmaður í Flóahreppi.