6.1 C
Selfoss

Umfangsmikil áætlunargerð hjá ferðaþjónustunni um land allt

Vinsælast

Ferðamálastofa hefur gengið til samninga um gerð stefnumarkandi stjórnunaráætlana (e. Destination Management Plan) í öllum landshlutum. Þetta er eitt stærsta verkefnis á sviði ferðaþjónustu sem ráðist hefur verið í hér á landi. Samið verður við markaðsstofur landshlutanna og Höfuðborgarstofu um að leiða vinnuna í hverjum landshluta en Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa átt samvinnu um verkefnið, ásamt markaðsstofum landshlutanna.

Stærsta samhæfða þróunarverkefnið

„Þetta er eitt stærsta samhæfða þróunarverkefnið sem ráðist hefur verið í hér á landi. Í gerð stefnumótandi stjórnunaráætlana felst heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á hverju svæði. Þá horfum við til þarfa heimamanna, fyrirtækja og umhverfisþátta jafnt sem gesta,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, og tekur fram að verkefnið sé unnið á forsendum heimafólks á hverjum stað.

Afurð verkefnisins felur í sér sameiginlega stefnuyfirlýsingu sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðila ber ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu. Gert er ráð fyrir til að áætlanagerðinni sjálfri ljúki á árinu 2018. „Niðurstöðurnar munu stuðla að markvissri þróun ferðaþjónustu í hverjum landshluta og auðvelda opinbera ákvarðanatöku sem snýr til dæmis að skipulagsmálum, uppbyggingu þjónustu, aðgangsstýrinu og markaðsáherslum,“ segir Ólöf.

Eitt af forgangsverkefnum Vegvísis

Svæðisbundin þróun hefur verið eitt af áherslusviðum Ferðamálastofu undanfarin misseri og hefur þetta metnaðarfulla verkefni verið í undirbúningi hjá stofnuninni síðan í upphafi árs 2015. Þetta er eitt af þeim forgangsverkefnum, sem skilgreind voru í Vegvísi fyrir ferðaþjónustuna, sem birtur var í lok árs 2015, en Ferðamálastofa og Stjórnstöð ferðamála hafa átt samvinnu um gangsetningu verkefnisins, sem fyrr segir.

Stjórnstöð ferðamála leiddi saman hagsmunaaðila og hefur samhæft undirbúning og innleiðingu verkfæra og aðferðafræði, en Ferðamálastofa fjármagnar verkefnið og heldur utan um framkvæmd þess. Stofnunin mun þannig beina 100 milljónum kr. af verkefnafé sínu til framkvæmdar verkefnisins á næstu 12 mánuðum.

Nýjar fréttir