9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Bækur efla hæfni til skoðanaskipta og styrkja sjálfsmynd

Bækur efla hæfni til skoðanaskipta og styrkja sjálfsmynd

0
Bækur efla hæfni til skoðanaskipta og styrkja sjálfsmynd
Magnús J. Magnússon.

Magnús J. Magnússon, skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, er lestrarhestur Dagskrárinnar að þessu sinni. Hann hefur alla tíð lagt ríka áherslu á leiklist í kennslu sinni og stjórnun. Magnús hefur verið mikilvirkur í starfi áhugaleikfélaga alveg frá 1970 er hann hóf að starfa með Litla leikklúbbnum á Ísafirði. Hann hefur einnig starfað með Leikfélagi Selfoss, Leikfélagi Hornafjarðar, Leikfélagi Hveragerðis og Leikfélagi Sólheima. Árið 1993 stofnaði Magnús unglingaleikhópinn Lopa og hefur alla tíð síðan unnið með þeim leikhópi og sett upp að meðaltali tvær sýningar á ári. Frá árinu 2008 hefur hann verið í verkefnastjórn fyrir Þjóðleik sem er samvinnuverkefni Þjóðleikhússins og unglingaleikhópa af öllu tagi.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Á þesssum tímapunkti eru handrit að leikritum á borðinu hjá mér. Er með handritið að Svefnlausa Brúðgumanum sem Leikfélagið Borg er að sýna undir minni leikstjórn og einnig handrit sem ég er að skoða fyrir unglingana mína á Ströndinni.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Þær hafa breyst örlítið eftir því sem árin hafa liðið. Ég las meira á kvöldin en ég geri núna. En lesturinn er enn bundinn við kvöldin og kannski um miðjan dag á sunnudögum

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég hef gengið í gegnum mörg tímabil. Á einu tímabili las ég bara ævisögur. Á öðru las ég allt um seinni heimstyrjöldina. Ég hef líka gengið í gegnum Laxness- og Þorbergstímabil svo eitthvað sé nefnt. En núna eru það góðar sakamálasögur!

Getur þú sagt frá bók sem hafði sérstaklega mikil áhrif á þig?
Það var bókin Kyrtillinn eftir bandaríska rithöfund Lloyd C. Douglas. Þetta er saga í þremur bindum og segir frá rómverskum hershöfðingja á tímum Jesús sem er að velta fyrir sér og skýra kraftaverkin sem Jesus gerði.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Það er bókin Bombi Bitt. Mér fannst hún hressandi og öðruvísi. Kannski er hún nær því að vera unglingabók. En það voru einnig bækur eins og Óli Alexander og bækur eftir Ármann Kr. Einarsson sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér.

Geta bækur breytt viðhorfi manna? Hvernig?
Bækur breyta viðhorfi manna. Þær efla skilning lesandans á umhverfi sínu, upplýsa hann og auka þekkingu hans á mörgum málum. Efla hæfni hans til margháttaðra skoðanaskipta og styrkja sjálfsmyndina.