7.3 C
Selfoss

Ræktó styrkir fimleika á Selfossi

Vinsælast

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða fagnaði 70 ára afmæli á  liðnu ári og var af því tilefni ákveðið að veita styrk til verðugs verkefnis. Fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss varð fyrir valinu og mun styrkurinn nýtast til áhaldakaupa.

Ræktunarsambandið var upphaflega stofnað í janúar 1946 af bændum í fimm hreppum sem samvinnufélag og telst því eitt elsta verktakafyrirtæki á landinu. Í kjölfar efnahagshruns 2008 gekk fyrirtækið í gegnum endurskipulagningu og var fyrirtækið selt nýjum hluthöfum árið 2014. Í kjölfar þess voru klæðingar- og jarðvinnudeildir félagsins seldar.

Í dag er áhersla fyrirtækisins á jarðboranir og rekur fyrirtækið alls sjö jarðbora sem geta tekist á við fjölbreytt verkefni enda búa starfsmenn fyrirtækisins yfir víðtækri sérþekkingu á því sviði. Helstu verkefni eru borun eftir heitu og köldu vatni, rannsóknarboranir, borun hitastigulshola (hitaleit), kjarnaborun, hreinsun gufuhola, grundunarholur, borun hola fyrir varmadælur og borun víðra vatns- og sjótökuhola. Aðal starfsstöð félagsins er á Selfossi.

Fimleikadeild Ungmennafélags Selfoss hefur sýnt afburða árangur undanfarin ár. Meistaraflokkur deildarinnar var fyrstur meistaraflokka í 80 ára sögu Umf. Selfoss til að hampa öllum titlum sem í boði eru þ.e.  Deildar-, Bikar- og Íslandsmeistaratitli, ekki bara árið 2015 heldur endurtók liðið það 2016. Þá hlaut liðið bronsverðlaun á Norðurlandameistaramóti 2015. Deildin er ein sú fjölmennasta hjá Ungmennafélaginu. Hjá henni æfir fjöldi efnilegra ungmenna sem eru sveitarfélaginu til mikils sóma. Styrkur Ræktunarsambands Flóa og Skeiða gerir deildinni kleift að búa enn betur að yngri iðkendum og aðstoða þá til að ná afburða árangri í greininni.

Nýjar fréttir