9.5 C
Selfoss

Samningur SASS og Félags skógareigenda á Suðurlandi

Vinsælast

Skrifað var undir samstarfssamning milli Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Félags skógareigenda á Suðurlandi í Fjölheimum á Selfossi sl. föstudag. Um er að ræða átaksverkefni byggt á fjármagni úr Sóknaráætlun Suðurlands.

Félagið fær styrk upp á 6 milljónir króna til að kanna, kortleggja og skrá hugsanlegar afurðir úr skógum á Suðurlandi. Einnig markaðsaðstæður og sölumöguleika afurða. Niðurstaða vinnunnar verður síðan notuð sem grundvöllur fyrir ákvarðanatöku um stofnun rekstrarfélags á Suðurlandi sem mun annast afurða-, markaðs og sölumál afurða úr skógum.

Í ávarpi á fundinum sagði María E. Ingvadóttir, formaður Félags skógareigenda á Suðurlandi, að það væri orðið brýnt að skapa grundvöll fyrir úrvinnslu þess grisjunarviðar og bolviðar sem nú þegar fellur til og mun falla til um ókomna framtíð. Hún sagði komið að því að byggja upp skógariðnað á Suðurlandi sem öfluga atvinnugrein og að með samhentu átaki muni skógarbændum á Suðurlandi takast það. Áformum um stóraukna skógrækt verði væntanlega fylgt eftir af Skógræktinni og að þau muni taka þátt í því. Í því samhengi sé markmiðið að auka kolefnisbindingu og muni skógarbændur taka þátt í þeim áformum og útfærsu.

„Það þarf að hvetja og styrkja bændur, sem hingað til hafa eingöngu verið í hefðbundnum búskap, til að hefja skógrækt og skjólbeltarækt og nýta þannig ónotað og heppilegt land undir skógrækt. Hitastig hækkar um 2 til 3 gráður með því að koma upp góðum skjólbeltum,“ sagði María. „Það þarf einnig að hvetja skógarbændur til að rækta meiri skóg. Það verður verkefni okkar næsu mánuði, að kortleggj aþau verðmæti sem í skógunum eru og þau tækifæri sem þar bjóðast.“

María sagði nauðsynlegt að bjóða skógarbændum meiri fræðslu, stutt námskeið og skoðunarferðir. Skógarbændur þurfi að hafa aðgang að heimasíðu þar sem allar grunnupplýsingar séu auk upplýsinga um afurða- og markaðsmál. Hún sagði að vanda þyrfti vel val á plöntum og taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Gæði plantna hafi vissulega batnað með aukinni þekkingu, reynslu og eftirfylgni en betur megi gera. „Við skógarbændur gerum okkur grein fyrir að afurðir skógarins verða hvorki betri né verri en gæði þeirrar vinnu sem við leggjum í nýskógrækt og umhirðu skógarins. Það á að vera markmið okkar að skógrækt og úrvinnsla skógarafurða verði sem mest og best umhverfisvæn, taki mið af umhverfinu og að landið fái þá vernd og örfun sem það þarf. Það álíka að vera markmið okkar að skógarbændur fái góðar tekjur af skógræktinni. Hún á að vera uppbyggð og skipulögð á hagkvæman hátt. Skógarbóndinn á að geta lifað góðu lífi af tekjum af jörð sinni,“ sagði María.

Nýjar fréttir