2.3 C
Selfoss

Uppspuni frá rótum í Litla leikhúsinu við Sigtún

Vinsælast

Leikfélag Selfoss frumsýnir verkið Uppspuna frá rótum föstudaginn 24. febrúar nk. í Litla leikhúsinu við Sigtún. Verkið er eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason en þeir hafa samið fjölda leikrita saman og í sitthvoru lagi. Auk þess eru þeir allir meðlimir í hinni stórskemmtilegu hljómsveit Ljótu hálfvitunum.

Verkið er fjölskyldusaga þar sem saman eru komnir fjórir ættliðir og hefst þegar Sigurður gamli, sem var í senn eiginmaður, pabbi, afi og langafi annarra persóna verksins, er nýlátinn. Fjölskyldusagan er rakin í grófum dráttum í öfugri tímalínu og spannar mestalla 20. öldina. Þar skiptast á skin og skúrir í samskiptum ólíkra póla, friðar, ófriðar, náttúrusinna og framkvæmdasinna, brottfluttra og aðfluttra auk ýmissa annarra litbrigða manneskjunnar. Verkið er bæði gaman og alvara með fjölda skemmtlegra laga sem einnig eru samin af áðurnefndu þríeyki. Það var fyrst sýnt á heimavelli þremenningana á Húsavík árið 2000 en er nú sett upp í annað sinn. Fjöldi skemmtilegra laga er í sýningunni sem öll voru samin sérstaklega fyrir upprunalegu uppsetninguna en hafa verið endurútsett að hluta og aðlöguð leikhópnum.

Leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir leikkona og leikstjóri sem nýlega leikstýrði hinni frábæru sýningu Andaðu, sem sýnd er um þessar mundir í Iðnó. Alls eru 15 leikarar í sýningunni, hæfileg blanda af reyndum kempum sem og rísandi stjörnur framtíðarinnar. Auk þess er fjöldi fólks sem vinnur hin fjölmörgu en gríðarlega mikilvægu handtök baksviðs. Hópurinn innan sviðs sem utan vinnur nú hörðum höndum að hnýta lausa enda til að gefa ykkur öllum frábæra sýningu sem fjallar um fólk eins og mig og þig og alla hina.

Leikfélag Selfoss býður spennt eftir að fá ykkur öll í heimsókn að sjá sýninguna okkar. Hægt er að kynna sér sýninguna nánar á fésbókinni á síðunni „Uppspuni frá rótum“ sem og viðburð um sýninguna undir sama nafni en þar er einnig hægt að kynna sér sýningartíma. Auk þess er hægt að fylgjast með okkur á snapchat undir nafninu leik-selfoss. Hægt er að nálgast miða í síma 482 2787 og á netfanginu leikfelagselfoss@gmail.com.

Nýjar fréttir