0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Íþróttir Gummi Tóta genginn til liðs við IFK Norrköping

Gummi Tóta genginn til liðs við IFK Norrköping

0
Gummi Tóta genginn til liðs við IFK Norrköping
Guðmundur Þórarinsson er genginn til liðs við sænska knattspyrnuliðið IFK Norrköping. Ljósmynd: IFK Norrköping.

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson frá Selfossi er genginn til liðs við sænska liðið IFK Norrköping. Gerði hann þriggja ára samning við félagið. Síðustu tvö keppnistímabil lék Gummi með norska liðinu Rosenborg og varð m.a. bikar- og Noregsmeistari með liðinu 2016. IFK Norrköping er eitt af toppliðunum í Svíþjóð og endaði í 3. sæti í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili.

Guðmundur er fæddur og uppalinn Selfyssingur og lék með liði Selfoss áður en hann fór til ÍBV þar sem hann lék í tvö tímabil. Guðmundur hóf atvinnumannaferil sinn með norska liðinu Sarpsborg 2013. Þaðan fór hann síðan til danska liðsins FC Nordsjælland. Síðustu tvö tímabil hefur hann svo leikið með norsku meisturunum í Rosenborg. Guðmundur á að baki 3 A-landsleiki og 22 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.