12.8 C
Selfoss
Home Fréttir Breytingar á deiliskipulagi við Hakið á Þingvöllum

Breytingar á deiliskipulagi við Hakið á Þingvöllum

0
Breytingar á deiliskipulagi við Hakið á Þingvöllum
Þjónustumiðstöðin við Hakið á Þingvöllum. Ljósmynd: FSR.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum 2. febrúar sl. tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Hakið á Þingvöllum. Breytingin felst í því að gert er ráð fyrir nýju bílastæði vestan við Hakið með allt að 285 bílastæðum auk þess sem fyrirkomulag núverandi stæða breytist. Þá er gert ráð fyrir tveimur nýjum salernisbyggingum, allt að 150 og 100 fm að stærð, við ný bílastæði. Að auki stækkar lóð og byggingarreitur starfsmannahúss og gert er ráð fyrir nýrri þjónustuleið að þjónustumiðstöð.

Tillagan var auglýst 13. október 2016 með athugasemdafresti til 25. nóvember 2016. Engar athugasemdir bárust aðrar en þær sem fram koma í umsögnum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Umhverfisstofnunar. Var tillagan lögð fram með breytingum til að koma til móts við umsögn Heilbrigðiseftirlitsins sem m.a. felur í sér að borhola er felld út, afmarkað er vatnsverndarsvæði og bætt er við ákvæðum varðandi bílastæði og upplýsingum um lagnir.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti deiliskipulagsbreytinguna með ofangreindum breytingum, með fyrirvara um nýja umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.