6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Umhverfisvænni Árborg

Umhverfisvænni Árborg

0
Umhverfisvænni Árborg
Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Meðal þeirra áskorana sem sveitarfélög standa frammi fyrir er að stuðla að aukinni vernd umhverfis m.a. með endurvinnslu, endurnýtingu, minni mengun og bættri meðferð orkugjafa. Sveitarfélagið Árborg vinnur nú að nokkrum verkefnum sem stuðla að bættri umgengni um landið og auðlindir þess.

Aukin sorpflokkun
Samningur Sveitarfélagsins Árborgar um sorphirðu frá heimilum og stofnunum sveitarfélagsins rennur út á næstu mánuðum og er undirbúningur nýs útboðs hafinn. Ráðgert er að bjóða sorphirðuna út að nýju í febrúar og að nýr samningur taki gildi næsta sumar.

Af þessu tækifæri er horft til þess að auka sorpflokkun heimafyrir, en margir íbúar hafa mikinn áhuga á því að auka flokkun sorps og minnka þar með magn þess úrgangs sem urða þarf. Margt af því sem urðað er í dag er hægt að endurvinna eða endurnýta.
Íbúar hafa nú tækifæri til þess að flokka pappír og bylgjupappa heimafyrir og setja í bláu tunnuna svonefndu. Ágætis árangur er af þeirri flokkun, þó svo að alltaf megi gera betur. Pappírinn sem flokkaður er frá er seldur úr landi og endurunninn. Málmar eru flokkaðir frá heimilissorpi með vélrænum hætti á móttökustöð Sorpu.

Ýmsum flokkum sorps er hægt að skila á gámasvæði sveitarfélagsins við Víkurheiði, þar er tekið við plasti, raftækjum og gleri, svo dæmi séu nefnd. Fatnað og aðra vefnaðarvöru geta íbúar sett í söfnunargám á gámasvæðinu eða í gáma við BYKO. Söfnunin fer fram í samstarfi við Rauða krossinn og má skila allri vefnaðarvöru í gámana, hvort sem hún er heil eða slitin. Heyrúlluplasti geta bændur safnað og er það sótt til þeirra og komið til endurvinnslu.

Úrvinnslusjóður endurgreiðir úrvinnslugjald fyrir ýmsa flokka úrgangs sem safnað er og skilað sérstaklega, þar með talið raftæki, rúlluplast og umbúðir úr pappír, pappa og plasti. Þessum greiðslum er ætlað að standa undir kostnaði við söfnun viðkomandi úrgangsflokka, meðhöndlun og endurnýtingu.

Stefnt er að því að auka flokkun á plasti og gera íbúum kleift að flokka það heimafyrir og skilja frá öðru sorpi. Þar með minnkar það magn sorps sem urða þarf, en það tekur plast marga áratugi eða aldir að brotna niður í náttúrinni. Fyrirkomulag flokkunar verður kynnt rækilega að útboði loknu og íbúar hvattir til að vera iðnir við flokkun.

Varmadælur
Velflest íbúðarhús í Árborg eru tengd við hitaveitu, önnur eru flest kynt með rafmagni. Í tvö ár hafa Selfossveitur boðið styrki, í samræmi við reglur þar um, til eigenda íbúðarhúsa sem standa fjarri dreifikerfi hitaveitunnar, til að setja upp varmadælur, en þær eru umhverfisvæn lausn sem bæta orkunýtni og draga úr húshitunarkostnaði. Nú þegar hafa fimm aðilar sótt um slíkan styrk og fengið umsóknir sínar samþykktar. Næst verður auglýst eftir umsóknum um styrki á haustmánuðum vegna úthlutunar fyrir árið 2018. Orkusjóður styrkir einnig uppsetningu varmadæla hjá húseigendum sem nú kynda með raforku og uppfylla skilyrði sjóðsins. Selfossveitur semja við þá sem styrksins njóta um að fá að fylgjast með orkunotkun og reynslu af varmadælunum.

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla
Selfossveitur sóttu í lok síðasta árs um styrk til Orkusjóðs til uppsetningar hleðslustöðva fyrir rafbíla og fengu samþykktan styrk fyrir uppsetningu fimm hleðslustöðva, sem settar verða upp á Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi. Þá færði Orkusalan sveitarfélaginu eina slíka stöð að gjöf í lok síðasta árs. Styrkjunum er ætlað að flýta fyrir orkuskiptum og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Stöðvarnar settar upp á þessu ári og er áætlað að stöðvarnar á Selfossi verði staðsettar við Sundhöllina, Ráðhúsið og íþróttasvæðið við Engjaveg, á Eyrarbakka við Stað og á Stokkseyri við sundlaugina. Þá er gert ráð fyrir að stöðin frá Orkusölunni verði við áhaldahús sveitarfélagsins og nýtt fyrir rafbíla sem ætlað er að leysa bensínbíla af hólmi.

Led-perur í götulýsingu
Sumarið 2016 var skipt um lampa í ljósastaurum í Lambhaga og Laufhaga og settir Led-lampar í stað eldri lampa með kvikasilfursperum og gaf sú breyting góða raun. Í framhaldinu hefur götulýsing verið endurnýjuð í nokkrum götum og ljósabúnaði í nokkrum stofnunum, þar sem komið var að endurnýjun, verið skipt út fyrir Led-ljós. Slíkar perur endast betur og nota mun minni raforku en glóperur, þær innihalda ekki kvikasilfur, eins og sparperur og hitamyndun af þeim er minni. Áfram verður unnið að breytingu á götulýsingu með þessum hætti og er ráðgert að skipta um ljós á a.m.k. 70 ljósastaurum á þessu ári. Kostnaður við breytingarnar er nokkur, en rekstrarkostnaður minnkar vegna minni orkunotkunar.

Margt smátt gerir eitt stórt, hvert skref í átt til aukinnar verndar umhverfis skiptir máli. Ég hvet íbúa til að leggja sitt af mörkum til þessara mála.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.