1.7 C
Selfoss

Myndlistarsýning Bataseturs í Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Geðræktarmiðstöðin Batasetur Suðurlands var stofnað í september 2015. Batasetur Suðurlands var stofnað með það fyrir augum að einstaklingar með geðraskanir af einhverju tagi gætu komið og elft sjálfa sig í gegnum ýmis verkefni og vera í samskiptum við aðra.

„Þegar farið var að ræða um að auka opnun Bataseturs komu upp óskir um að nýta þann tíma fyrir skapandi listir og fengum Davíð Art listmálara með meiru til þess að leiðbeina okkur til að byrja með. Styrkur sem Lionsklúbbur Selfoss veitti Batasetrinu kom að góðum notum og var þá hægt að kaupa þau aðföng sem voru nauðsynleg til þess að byrja,“ segir Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir, forstöðumaður Bataseturs.

„Það hefur verið frábært að fylgjast með hópnum fikra sig áfram með penslana í það að tjá tilfinningar sínar á strigann og sjá stórkostleg listaverk fæðast. Listamennirnir eru eins ólíkir og þeir eru margir og það er dásamlegt að fá tækifæri til að sýna hversu hæfileikaríkir notendur Bataseturs eru.
Héléne M.C. Dupont kom með þá hugmynd að fá að sýna í Bókasafninu á Selfossi og hefur hún haft veg og vanda að skipulagningu sýningarinnar. Að fá tækifæri til þess að sýna afrakstur þeirrar vinnu sem listamennirnir hafa stundað í vetur er stórkostlegt og ýtir undir bata þeirra og valdeflingu.“

Titill sýningarinnar Bati í litum vísar til þess að listform á hvaða hátt sem það kemur fram, hefur heilandi áhrif á einstaklinginn, það er gott að geta málað tilfinningar sínar á blað ef að maður getur ekki orðað þær.

Sýningin er sem fyrr segir í Bókasafni Árborgar á Selfossi. Hún opnaði 1. febrúar sl. og stendur til 28. febrúar. Allar myndirnar á sýningunni eru til sölu og rennur allur ágóðinn til listadeildar Batasetursins til þess að hægt verði að halda úti þessari frábæru meðferðarvinnu sem felst í listmálun.

Nýjar fréttir