7.8 C
Selfoss

Garðyrkjustöð Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss fékk umhverfisverðlaun Hveragerðis

Vinsælast

Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar voru afhent af forseta Íslands hr. Guðna Th. Jóhannessyni við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta.

Í ár ákvað umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar að veita garðyrkjustöð Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss viðurkenninguna. Byggði nefndin val sitt á áratuga starfsemi garðyrkjustöðvarinnar og þeirri hugsjón sem hún byggir á. Sú ræktun sem þar fer fram er fyrst og fremst hugsuð til notkunar á þeim heimilum sem tengjast rekstri hennar þ.e. Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Ási í Hveragerði, Grund dvalar- og hjúkrunarheimili í Reykjavík og Mörk hjúkrunarheimili í Reykjavík.

Það var í kringum 1960 sem Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund eignast garðyrkjustöðina og frá þeim tíma hefur rekstur hennar vaxið og umsvif aukist eftir því sem heimilin hafa  stækkað. Í dag ræktar stöðin tómata, gúrkur, paprikur, gulrætur og ýmislegt annað grænmeti ásamt því að vera með töluverða sumarblómarækt. Við ræktunina er notast við vistvænar aðferðir þannig að umhverfisáhrifin verði sem minnst og gæði framleiðslunnar sem mest.

Þetta samspil ræktunar og reksturs dvalar- og hjúkrunarheimila má segja að sé einstakt og til fyrirmyndar. Heimilismenn á Ási hafa í gegnum tíðina tekið til hendinni í garðyrkjustöðinni og því má með sanni segja að þar sé stunduð bæði ræktun lýðs og lands.

Nýjar fréttir