1.7 C
Selfoss

Fleygur

Vinsælast

Uppskriftin að þessu sinni sameinar það sem gerir verkefni skemmtileg; að prófa aðferð sem hefur verið að gerjast og prófa nýja garntegund.

Útkoman er trefill sem er 125 sm langur og mjór í annan endann.

Grunnaðferðin er garðaprjón, slétt prjón fram og til baka, og því auðvelt og spennandi fyrir styttra komna prjónara.

Lögun trefilsins verður til við það að prjóna stytta garða og þó þetta sé trefill er hæglega hægt að halda áfram að endurtaka einingarnar þar til komin er myndarleg hyrna, allt eftir smekk og löngun.

Garn og verkfæri

Grunnliturinn er úr glænýju garni frá RICO sem heitir Superba Cashmeri Luxury Socks. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða eðal garn sem er sérlega mjúkt og áferðarfallegt og er með nælonstyrkingu til að geta kallast sokkagarn. 65% lamsbull, 25% nælon, 10% kasmírull. Garnið fæst í 5 mismunandi litum og auðvitað er hægt að gera fleyginn úr einum lit en hér eru gerðar rendur í þrem mismunandi litum með tvöföldu Anisia mohairgarni (76% mohair, 24% nælon). Það fæst í 35 litum og er alltaf gaman að leika sér með.

Ein dokka í hverjum lit.

Prjónn no 4,5, 80 sm eða lengri.

Fyrsta lykkja umferðar er alltaf tekin af prjóninum óprjónuð og telst með.

Þegar verið er að skipta um lit og búið er að taka fyrstu lykkjuna óprjónaða er næsta lykkja prjónuð með báðum litunum.

Hver mynstureining er 19 garðar með styttum umferðum og garntegundunum tveimur til skiptis og síðan 5 garðar í grunnlitnum.

Aðferð

Fitjið upp 200 lykkjur laust og með aðferð sem hefur góða teygju.

Prjónið sl til baka og síðan einn garð (sl prjón fram og til baka).

Mynstureining er alls 24 garðar:

Fyrsti garður er prjónaður í mynsturlit. Prjónið 8 l sl, 2 l saman sl. Snúið við og prjónið til baka.

Eftir þetta eru garðarnir prjónaðir með garntegundunum tveim til skiptis og garðurinn lengist um 10 lykkjur í hvert sinn.

  1. – 19. garður:

* Prjónið að gatinu (9 sl í fyrsta garðinum, 19 í þeim næsta osfrv), sláið uppá, 8 l sl, 2 saman sl. Snúið við og prjónið til baka.*

Endurtakið *-* þar til búið er að gera síðasta stytta garðinn. Þá eiga að vera eftir 10 lykkjur út á enda.

Prjónið því næst 5 garða í grunnlit þannig: Í fyrstu umferðinni er slegið uppá við síðasta gatið sem kom þegar snúið var við í síðasta garði og síðan prjónað út á enda. Prjónið til baka og síðan 4 garða í viðbót.

Prjónið áfram tvær eins einingar (eða fleiri) en þó þannig að í lokin eru bara prjónaðir tveir garðar í grunnlitnum og síðan fellt laust af.

Gangið frá endum. Skolið í volgu sápuvatni og leggið til þerris.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir