5.6 C
Selfoss

Fyrsta skóflustunga að nýrri Ölfusárbrú tekin í dag

Vinsælast

Undirritaður verður verksamningur vegna byggingar brúar yfir Ölfusá í dag, miðvikudaginn 20. nóvember, klukkan 15:00 í golfskálanum við Selfoss. Í framhaldinu tekur Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála, efnahags- og innviðaráðherra fyrstu skóflustunguna að Ölfusárbrú.

Undirbúningsframkvæmdir á verkstað hefjast innan skamms. Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á brúna á árinu 2028.

Dagskráin er eftirfarandi:

Kl. 15:00 Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, undirrita samninginn.

Kl. 15:30 Gengið að nýju brúarstæði og ráðherra tekur fyrstu skóflustungu að Ölfusárbrú.

Kl. 16:00 Boðið til hressingar í Golfskála Selfoss.

 

Nánar um verkefnið Hringvegur (1) um Ölfusá:

Ný Ölfusárbrú er hluti af verkefninu Hringvegur (1) um Ölfusá sem felst í að færa Hringveginn út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Byggð verður 330 metra löng og 19 metra breið brú, nýr 3,7 km vegarkafli auk um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Ný vegamót verða gerð austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Auk umferðar mun brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt.

Ný Ölfusárbrú mun gjörbylta bílaumferð um Selfoss og Suðurland allt. Henni fylgir aukið umferðaröryggi, m.a. með aðskilnaði akstursstefna og styttri ferðatíma. Auk þess dregur verulega úr umferðartöfum og mengun í bænum. Einnig styrkir hún atvinnulíf á svæðinu og eflir lífsgæði íbúa og gesta á Suðurlandi.

Núverandi brú var byggð fyrir tæpum 80 árum og hefur þjónað sínu hlutverki með glæsibrag. Hins vegar hefur umferð vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum með fjölgun íbúa og ferðamanna á Suðurlandi en daglega fara nú um 14.500 ökutæki um brúna. Til framtíðar má gera ráð fyrir að umferð um svæðið muni aukast enn frekar með fjölgun íbúa og ferðafólks.

Nánari upplýsingar um samninginn:

Um er að ræða alútboð þar sem ábyrgð á endanlegri hönnun mannvirkja er á höndum verktakans og hefur ÞG Verk ráðið til sín hönnuði til að fullhanna verkið. Alþjóðlega hönnunar- og ráðgjafafyrirtækið Ramboll mun hanna brú á Ölfusá. Verkfræðistofan Verkís annast hönnun vega, jarðtækni auk annarra brúa og undirganga. VSL, alþjóðlegt fyrirtæki með sérþekkingu í hönnun og byggingu kapalbrúa, mun starfa með ÞG verktökum að verkinu.  

Vegagerðin sinnir umsjón og eftirliti með hönnun og framkvæmdum.

Framkvæmdakostnaður:

Áætlaður framkvæmdakostnaður við byggingu Ölfusárbrúar og tengda vegi í heild sinni er 14,3 ma.kr. á verðlagi ársins 2024. Þar af er brúin talin kosta um 8,4 ma.kr.  Fjármagnskostnaður (verðbætur til verkloka og framkvæmdafjármögnun) vegna lántöku er áætlaður 3,6 ma.kr. Samtals er því heildarkostnaður við verkið áætlaður um 17,9 ma.kr. sem ætlunin er að standa undir með gjaldtöku af umferð.

Verktakafyrirtækið ÞG verk bauð fyrr á árinu í hönnun, byggingu og fjármögnun brúarinnar á framkvæmdatíma verkefnisins á nýju vegstæði yfir Ölfusá. Verkefnið tekur mið af samvinnuverkefnum þar sem einkaaðili tekur á sig áhættu er varðar útfærslu og fjármögnun tiltekinnar framkvæmdar. Markmiðið með samvinnustjórnvalda og einkaaðila er að flýta þjóðhagslega mikilvægum samgönguframkvæmdum.

Innheimt verða veggjöld en upphæð mun taka mið af því að verkefnið verði fjárhagslega sjálfbært. Þessi leið við fjármögnun felur í sér að hægt er að flýta framkvæmdum við Ölfusárbrú án þess að tefja aðrar framkvæmdir við samgönguinnviði sem fjármögnuð eru beint af ríkinu enda muni veggjöld af umferð standa undir kostnaði.

Nýjar fréttir