10.6 C
Selfoss

Vinarminning – Jón Áskell Jónsson

Vinsælast

Jón Áskell Jónsson
F. 20. september 1939 á Stokkseyri. D. á Ljósheimum, Selfossi, 29. júní 2024.

Einstakur ljómi leikur um minningar blómaáranna í Búrfelli. Fyrstu árin bjó fjölskylda mín á Skeljastöðum 3 og varð strax mikil vinátta við fjölskylduna í næsta húsi, Skeljastöðum 2; hjónin Jón Áskel, Guðbjörgu og börn þeirra Jón Rafn, Ómar og Jónínu. Pabbi, Sigurður Björgvinsson, starfaði sem vélfræðingur við virkjunina og Jón Áskell sem meistari í vél- og bifvélavirkjun.

Pabbi og Jón Áskell urðu miklir vinir, héldu saman hesta í gömlu starfsmannahúsi í félagi við aðra hestamenn í Búrfelli og mikil stemning ríkti í nánu og þéttu samfélaginu við Búrfell. Litla þorpið við hálendisbrúnina var stórkostlegur búsetustaður á þessum árum, þar til fjölskyldurnar fóru að tínast í burtu á níunda áratugnum.

Árið 1980, fjórum árum eftir að við fluttum í Búrfell, ákvað hreppsnefnd Gnúpverjahrepps að setja jörðina Skarð á sölu. Skarð hafði verið prestsetur fram yfir 1970 en þá fór kirkjan í makaskipti við hreppinn. Jörðin hafði ekki verið setin í nokkur ár og húsakostur hafði látið mjög undan. Glæsileg jörð fremst í sveitinni á hreppamörkum Hrunamanna- og Skeiða- og Gnúpverjahrepps þar sem Stóra-Laxá skiptir sveitum.

Úr varð að þau mamma og pabbi og Jón og Gauja voru valin úr hópi umsækjenda um kaup á jörðinni og við tók mikil uppbygging og áform um búrekstur. Jón og Gauja byggðu hús í snatri og fluttu fram að Skarði. Mín fjölskylda flutti síðan endanlega vorið 1984.

Hugmyndin að kaupum þeirra á jörðinni kviknaði í glensi. Það var þegar hópur hestafólks úr Búrfelli var að koma ríðandi af Landsmóti hestamanna á Skógarhólum sumarið 1978. Þá var á við gamla veiðihúsið í Hólakoti og riðið þaðan yfir Stóru-Laxá upp á Langamel og sem leið lá í gegnum jörðina og upp hrepp inn í Búrfell. Þessi fallega jörð á einkar skemmtilegum stað var í eyði og Jóni og pabba varð á orði að þeir yrðu að kaupa þessa jörð.

Tveimur árum síðar varð það að veruleika.

Það var alla tíð traust og góð vinátta á milli fjölskyldnanna. Jón Áskell var sérstaklega sterkur persónuleiki. eldklár til orðs og æðis, féll aldrei verk úr hendi og var ákaflega traustur vinur. Pabbi rifjaði það upp sem dæmi um réttsýni Jóns Áskels að þegar þau síðar skiptu jörðinni hvað hann var sanngjarn til hins ítrasta enda gekk það ljúflega fram.
Jón Áskell var eðalkrati en A-flokkarnir höfðu verið sterkir við ströndina. Jón var frá Stokkseyri og Gauja frá Eyrarbakka. Þau voru félagshyggjufólk, líkt og foreldrar mínir, og án efa smituðust þau viðhorf og lífsgildi til okkar krakkanna þó að flokkapólitísk umræða væri sjaldan viðhöfð.

Ég gleymi því aldrei þegar við vorum að fylgjast með upptakti og aðdraganda Alþingiskosninganna 1987. Þá hrifumst við mjög af Alþýðuflokknum og eldmóði hans, höfðum samband við skrifstofuna í Alþýðuhúsinu á Hverfisgötu og fengum sendan fullan kassa af bæklingum, bollum og barmmerkjum.

Þar var teningunum kastað og oft var mér hugsað til þessa tíma þegar þrettán árum seinna sat ég á skrifstofu nýstofnaðrar Samfylkingar jafnaðarfólks sem framkvæmdastjóri flokksins. Jafn traustur vinur og Jón var studdi hann mig alltaf eindregið og undantekningalaust í mínu pólitíska ati.

Sjálfur var ég heimagangur á heimili þeirra og hélt það í raun alla tíð. Jón og Jón Rafn fluttu frá Skarði í kjölfar andláts Gauju sem féll frá á besta aldri úr krabbameini vorið 2003. Eftir það héldu þeir feðgar heimili á Selfossi.

Sú hefð varð til á æskuárum mínum að ég kom alltaf til þeirra á Þorláksmessu í heimsókn. Því héldum við alla tíð og öll sumur komu þeir feðgar að Skarði, fóru inn í skógrækt og ræktuðu gömul tengsl.

Það eru forréttindi sem ekki eru öllum gefin að eignast vin á borð við Jón Áskel. Við lögðum okkur öll fram um að rækta og viðhalda vináttunni sem varð til á ævintýratímanum í Búrfelli og síðar í Skarði. Hélt það bókstaflega til hinsta dags í lífi Jóns.

Við pabbi og fjölskylda söknum vinar í stað. Tilveran er svipminni að okkar kæra vini gengnum.

Við sendum fjölskyldu Jóns Áskels okkar einlægustu samúðarkveðjur með þökk fyrir allt og allt.

Minningin lifir um einstakan mann.

Björgvin G. Sigurðsson

Nýjar fréttir