7.8 C
Selfoss

Viðburðaríkur vetur í Tónlistarskóla Rangæinga

Vinsælast

Það hefur verið viðburðaríkur vetur í Tónlistarskóla Rangæinga, en í skólanum voru rétt rúmlega 150 nemendur skráðir í einkanám við skólann, tæplega 40 nemendur í Sönglist og tæplega 90 nemendur í forskóla í grunnskólum og leikskólum í Rangárvallasýslu. 

15 nemendur voru í Suzukinámi við skólann, á píanó, fiðlu, selló og blokkflautu. Einn nemandi var í framhaldsnámi, 13 nemendur í miðnámi og allir hinir í grunnámi.

Í vetur hafa verið starfandi  við skólann 19 fastráðnir og fjórir stundakennarar, samtals í rúmlega 10 stöðugildum.

Þetta er einstaklega flottur hópur af frábærum tónlistarmönnum, eins og hefur sýnt sig við undirbúning og framkvæmd kennaratónleikanna sem haldnir voru fyrir Páskafrí.  Þessir tónleikar voru alfarið á vegum kennaranna sjálfra! 

Viðburðir

Það er líka sérstaklega skemmtilegt að fara á nemendatónleika kennaranna, en þeir voru samtals 27 á þessu skólaári. Þá sér maður hvað þessir kennarar hlúa vel að nemendum sínum og leggja sig fram við kennslu. 

Nemendur skólans komu einnig fram á öðrum tónleikum á vegum skólans, haldnir voru 6 tónfundir með ákveðnu þema, tveir stórir samspilstónleikar (jól og vor), og farið var í nokkrar heimsóknir á dvalarheimilin auk þátttöku nemenda í guðsþjónustum og á öðrum viðburðum, t.a.m. 90 ára afmæli Hvolsvallar og Stóra upplestrarkeppnin. Einn nemandi hélt einleikstónleika í vor.

Samsöngshóparnir voru með tvo viðburði í vetur, en eldri samsöngsnemendur undir stjórn Aðalheiðar Gunnarsdóttur söngkennara settu á svið skemmtilega Disney-sýningu. Fengin var aðstoð grunnskóla- og leikskólabarna við að útbúa leiksvið og skreytingar.

Yngri samsöngsnemendur undir stjórn Maríönnu Másdóttur héldu glæsilega tónlistarsýningu í anda Trolls-teiknimyndanna. 

Einn nemandi skólans fékk að taka þátt í Upptaktinum, tónsköpunarverðlaun fyrir börn í 5.-10. bekk grunnskóla.

Þrír nemendur tóku þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, en svæðistónleikar voru haldnir í Salnum í Kópavogi í vor.

Nú eru nemendur skólans komnir í sumarfrí, en stjórnendur eru farnir að undirbúa næsta skólaár og verður margt skemmtilegt á döfinni þá! 

Tónlistarskóli Rangæinga var stofnaður árið 1956 og er rekin af þrem sveitarfélögum: Ásahreppi, Rangárþingi eystra og Rangárþingi ytra. Kennt er á Hvolsvelli, Hellu og Laugalandi.

Tónlistarskóli Rangæinga

 

Halla Þuríður Steinarsdóttir leikur á fiðlu á einleikstónleikum sínum, Dan Cassidy kennari hennar spilar með.
Harmonikkusamspil á nemendatónleikum.
Trolls.

Nýjar fréttir