7.3 C
Selfoss

Sameiningarhugleiðingar

Vinsælast

Árið 1946 klauf Hveragerði sig frá Ölfushreppi. Á þeim árum var að myndast þéttbýli í Hveragerði, en í Ölfusi var hefðbundið bændasamfélag – Þorlákshöfn nánast ekki til. Skilin voru að frumkvæði Hvergerðinga en þó ekki að ég hygg í almennri óþökk Ölfusinga. Hagsmunir voru svo ólíkir og íbúar líka. Íbúar Hveragerðis voru garðyrkjumenn og efnalitlir listamenn, ljóðskáld, rithöfundar og listmálarar, sem nýttu sér jarðhitann til reksturs og upphitun hýbýla og gróðurhúsa. Hagsmunir Hvergerðinga og bænda voru ólíkir og því urðu þessi þáttaskil 1946.

Á þessum árum var ákveðinn togstreita milli þéttbýlis og dreifbýlis alls staðar á Íslandi. Fólk af landsbyggðinni streymdi á þéttbýlisstaðina við sjávarsíðuna í leit að betri afkomu. Reykjavík hafði nartað úr Seltjarnarneshreppi í fjölda mörg ár, keypti bújarðir og fékk síðan Alþingi til að samþykkja breytingu á lögsagnarumdæminu. Sömu sögu er að segja um klofningu Kópavogs frá sama hreppi. Þar skildust að þéttbýli og búskapur. Svo klofningurinn við Ölfus var ekkert einsdæmi.

Frá 1946 hefur margt gerst í báðum bæjarfélögum. Þorlákshöfn byggðist upp sem stór útgerðarbær og þar er nú líka stór innflutningshöfn. Hefðbundinn landbúnaður nánast horfinn. Aðeins ein jörð í Ölfusi stundar hefðbundinn landbúnað í dag. Fiskeldi á landi er þar orðin stór atvinnugrein og framtíðin er mjög björt. Hveragerði hefur á hinn bóginn þróast á allt annan hátt, áherslan áfram á ylrækt og heilbrigðismál en ferðaþjónustan hefur vaxið mjög mikið m.a. í góðri samvinnu við Ölfus.

Fyrir nokkrum árum fór fram íbúakosning um sameiningu Ölfuss og Hveragerðis. Niðurstaðan var sú að íbúar Hveragerðis samþykktu sameiningu með miklum mun, en sameiningin var felld í Ölfusi. Kom það undirrituðum, „innflytjanda“ í Hveragerði, á óvart eins og reyndar mörgum öðrum. Leituðu menn skýringa því almennt var talið jákvætt fyrir báða aðila að sameinast. Sumir töldu ástæðuna þá að Hveragerði hefði slitið sig frá Ölfusi í óþökk Ölfusinga, eins og hjónaskilnaður, en það stendst sennilega ekki skoðun.

Ástæðan er frekar sú að samvinnan milli bæjarfélagana er ekki eins góð og hún ætti að vera. Kosninganiðurstaðan bendir til slíks, og þá þurfa Hvergerðingar að taka sér tak. En kannske voru þetta skipuleg samantekin ráð í Ölfusi og þá var könnunin sóun á tíma og peningum. Hver svo sem skýringin er, þá er það bara tímaspursmál hvenær ný íbúakosning um sameiningu mun eiga sér stað – Ef sú kosning yrði, færi Hveragerði trúlega aftur í faðm Ölfusar á ný, enda væru það hagsmunir beggja aðila. Þá eru líka raddir um að Ölfus sameinaðist Árborg eða Reykjavík, jafnvel að allir í Árnessýslu sameinuðust. Líklegasta þróunin er samt sú að sameiningarnar verði ekki í stórstökkum heldur í smáum skrefum, og byrjað á að litla “frímerkið” Hveragerði renni saman við stóra bróður Ölfus í náinni framtíð. Svo verður tekið næsta skref og enn annað ef það reynist vel. Hagsmunaárekstrar eru ekki til staðar en það þarf hugarfarsbreytingu í báðum bæjarfélögunum.

Róbert Pétursson

Nýjar fréttir