1.1 C
Selfoss

Stóðhestaveislan safnar fyrir Einstök börn

Vinsælast

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin hátíðlega laugardaginn 13. apríl við troðfulla HorseDay höllina að Ingólfshvoli og þökkum við staðarhöldurum fyrir gott samstarf. Á sama tíma var útgáfa Stóðhestabókar Eiðfaxa og er hún nú fáanleg í ýmsum hestavöruverslunum víða um land. Í ár var aðalstyrktaraðili viðburðarins Víking og þökkum við þeim stuðninginn. 

Fjöldinn allur af frábærum hrossum komu fram á veislunni og viljum við þakka ræktendum, eigendum og knöpum þessara hrossa fyrir velvildina en án þeirra hefði sýningin aldrei orðið að veruleika. Viljum við einnig þakka þeim fjölmörgu sem lögðu mikið á sig við undirbúning sýningarinnar og einnig þeim sem lögðu fram mikla og óeigingjarna vinnu á sýningarstað. Þökkum við þeim áhorfendum sem komu og troðfylltu HorseDay höllina fyrir komuna en mikil gleði var í höllinni og gott andrúmsloft. Ekki má svo gleyma þeim þúsundum áhorfenda víðsvegar í heiminum sem fylgdust með veislunni í beinu streymi frá HorseDay höllinni. Viljum við þakka KUKL fyrir þeirra störf en þeir sáu um útsendinguna og þulum kvöldsins Ágústi Sigurðssyni og Hjörvari Ágústssyni. Ekki má heldur gleyma honum Óla Pétri sem var að vana í hurðinni og sá til þess að allt gekk þetta nú hratt og örugglega fyrir sig.

Söfnunin stendur til 1. maí

Í gegnum tíðina hafa hestamenn látið gott af sér leiða á Stóðhestaveislunni og hafa safnast á milli 50 – 60 milljónir í tengslum við þessa viðburði. Málefnin hafa verið fjölbreytt en safnað hefur verið fyrir líknarfélög, góðgerðarfélög og einstaklinga. 

Í ár varð stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni, Einstök börn, fyrir valinu. Tveir folatollar voru gefnir til styrktar Einstökum. Guðbrandur Stígur Ágústsson gaf toll undir hest sinn Stein frá Stíghúsi sem fór á 500.000 krónur og þá gaf Olil Amble folatoll undir Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum sem fór á 550.000 krónur. Við þökkum þessum eigendum þessara stórgæðinga fyrir sitt framlag til Einstakra barna og að auki þeim ræktendum sem fjárfestu í folatollum undir þessa frábæru stóðhesta og styrktu um leið málefnið.

Happdrættismiðar til styrkar Einstökum börnum eru enn til sölu en dregið verður út þann 1. maí. Frábærir vinningar eru í boði t.d. flug með Play, folatollar undir marga af okkar fremstu stóðhestum, gjafabréf frá ýmsum aðilum og margt fleira. Hægt er að hafa samband við Magnús Benediktsson – maggiben@gmail.com til þess að verða sér úti um miða sem kosta einungis 1.000 kr.

Takk fyrir okkur!
Aðstandendur Stóðhestaveislu Eiðfaxa

Nýjar fréttir