4.5 C
Selfoss

Ég á mér þann ósið að klára ekki að lesa bækur

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Vala Hauks

Vala Hauks býr á Selfossi með Atla Páls, þyrluflugmanni og börnunum þeirra tveimur, Ísari og Öldu. Vala starfar hjá Markaðsstofu Suðurlands og stundar einnig meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur starfað í tengslum við ferðaþjónustu í rúman áratug en er nýskriðin út úr skelinni sem skáld, eftir að hún hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör, í janúar 2024. Hennar helstu yrkis- og hugðarefni eru náttúran, landsbyggðamenning og svo hversdagsleikinn, sem henni þykir allt of vanmetinn í nútíma samfélagi.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ljóðabókatvenna Gyrðis Elíassonar, Dulstirni og Á meðan glerið sefur, er lesin yfir kaffibollanum þessa dagana enda eru þar ótal konfektmolar sem ég get lesið aftur og aftur. Ég er að klára barnabókaþríleikinn Nornasaga eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur fyrir son minn, en höfundurinn er einmitt kennarinn minn í barnabókaskrifum í háskólanum. Þessar bækur hafa vakið áhuga sonarins á rúnum og Völuspá. Þá kemur sér vel að við eigum barnaútgáfu af Völuspá eftir Þórarin Eldjárn, myndlýsta af Kristínu Rögnu svo nú erum við byrjuð að lesa hana líka. Svo er það skólalesturinn þar sem ég er þessa vikuna að ,,Fást við Goethe. Þegar ég fæ tíma í hljóðbókalestur hlusta ég á The Great Alone eftir Kristin Hannah, eftir að mamma mælti með henni. Það má alltaf treysta á bókaráðleggingar frá mömmu.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þó annað megi virðast, er ég ekki mikill lestrarhestur, það er, ég les ekki mikið af skáldsögum alla jafna. Ég er miklu frekar grúskari. Uppáhalds bækurnar mínar eru gamlar ferðabækur á borð við Ferðabók Eggerts og Bjarna og sannsögur (e. Creative non-fiction).

Ertu alin upp við bóklestur?

Mamma las mikið fyrir mig og það sem situr mest eftir eru bækurnar eftir Enid Blyton, J.K.Rowling, Guðrúnu Helgadóttur og Isabel Allende. Þegar pabbi las fyrir mig valdi hann gjarnan eitthvað sem var aðeins út fyrir barnabóka rammann. Hann las til dæmis fyrir mig smásögur eftir Gyrði Elíasson og Jorge Luis Borges, grískar goðsögur og Hobbitann. Við áttum líka góðar stundir saman við að lesa Blíðfinn. Ég sé það núna að þau hafa ómeðvitað skipt á milli sín karlkyns og kvenkyns rithöfundum. Ég las líka mikið sjálf og mín uppáhalds bók úr æsku er Ferðin til Samiraka eftir Hörpu Jónsdóttur.

Er eitthvað sem einkennir lestrarvenjur þínar?

Ég á mér þann ósið að klára helst ekki bækur. Mér er bara alveg skítsama um söguþráðinn. Ég les til að njóta orðanna, stemningarinnar og persónanna. Þá sjaldan ég klára bækur verð ég iðulega ósátt í lokin svo mér finnst betra að leyfa bókinni að njóta vafans. Gallinn er að nú þegar ég ætla að verða rithöfundur hef ég ekki hugmynd um hvernig eigi að enda bækur.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Ætli Sigurður Pálsson sé ekki minn uppáhalds rithöfundur. Ljóðin hans tala til mín og þegar ég les sjálfsævisögur hans lifi ég mig svo inn í þær að mér finnst ég bara vera Sigurður Pálsson. Mér finnst við eiga einhverja óútskýranlega andlega tengingu en líklega upplifa flestir aðdáendur hans þessa sömu tilfinningu. Hann var bara svona flinkur.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Einu bækurnar sem hafa rænt mig svefni eru þær sem ég á óskrifaðar. Hugurinn er frjóastur einmitt þegar ég er sem þreyttust og stundum þarf ég að skrifa hugmyndirnar niður í bók sem ég geymi í náttborðinu bara til að fá svefnfrið.

En að lokum Vala, hvernig bækur ætlar þú að skrifa sem rithöfundur?

Ég er í meistaranámi sem gengur út á það að finna svarið við þessari spurningu. Áhugaverðasta hrósið sem ég hef fengið í skólanum hingað til var að ég væri góð í að skrifa um „sammannlegan hversdagsleika“. Það kom mér á óvart og gaf mér nýja sýn á hvert ég gæti stefnt með skrifin. Ég hef víst sagt í ríkisútvarpi og sjónvarpi að ég ætli að gefa út ljóðabók á næstunni, sjáum til hvenær ég verð nógu ánægð með handritið. Í háskólanum er ég svo að vinna byrjunina á ævintýri fyrir börn. Ég ætla ekki að lofa enn einni bókinni í fjölmiðlum landsins en vonandi fá fleiri börn en mín að njóta sögunnar einn daginn.

Nýjar fréttir