5.6 C
Selfoss

Bókarkynning með tónlistarívafi í Bókakaffinu á Selfossi

Vinsælast

Á sumardaginn fyrsta, 25. apríl kl. 16:00, verður Einar Lövdahl í Bókakaffinu á Selfossi og kynnir þar nýja bók sína Gegnumtrekk auk þess sem hann flytur nokkur frumsamin lög. Ætlunin er að fagna sumrinu á notalega hátt, með góðan kaffibolla í annarri hendi og fallega bók í hinni. Aðgangur er ókeypis.

Einar Lövdahl sendi frá sér skáldsöguna Gegnumtrekk í síðasta mánuði. Í upphafi dagskrár mun Einar segja frá tilurð bókarinnar og lesa upp úr henni valinn kafla. Þá ætlar hann að grípa í gítar og flytja frumsamin lög með líflegum og grátbroslegum textum sem kallast á við efni bókarinnar eða rithöfundastarfið. Að loknum tónleikum geta áhugasamir nælt sér í áritað eintak af Gegnumtrekk.

Um bókina

Gegnumtrekkur er hnyttin og heiðarleg skáldsaga um stritið við að standa í lappirnar í vindasamri tilverunni. Sagan segir frá Aski, ungum manni sem virðist óttast lífið sjálft og ætlar að stinga af og byrja upp á nýtt. Flýja óþægileg samskipti, kvíðvænlegar áskoranir hversdagsins og stóru spurningarnar í lífinu. En það virðist vera sama hvert hann fer, alltaf er mamma hans – sem hann hefur ekki hitt í meira en áratug – með í för.

Um er að ræða fyrstu skáldsögu Einars, sem bar sigur úr býtum í handritasamkeppni Forlagsins, Nýjar raddir, árið 2021 með smásagnsasafninu Í miðju mannhafi.

Um tónlistina

Einar Lövdahl sendi frá sér sólóplötuna Tímar án ráða árið 2013 og hefur upp frá því látið að sér kveða sem textahöfundur. Hann hefur starfað sem slíkur með listafólki á borð við Jón Jónsson, GDRN, Helga Björns og Jóhönnu Guðrúnu. Þá er hann annar helmingur LØV & LJÓN sem gaf út plötuna Nætur árið 2019.

Nýjar fréttir