7.8 C
Selfoss

Marín Laufey glímudrottning Íslands í sjötta sinn

Vinsælast

Íslandsglíman fór fram sl. laugardag í 113. sinn og það í fyrsta sinn á Laugarvatni. Í ár var keppt um Grettisbeltið í 113. skiptið og um Freyjumenið í 24. sinn. Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands var heiðursgestur og afhenti verðlaun að keppni lokinni.

Tíu keppendur voru skráðir til leiks í keppni um Grettisbeltið og níu luku keppni, þar af voru þrír keppendur frá HSK. Fjórar konur glímdu um Freyjumenið og þar átti HSK einn keppanda.

Ljósmynd: Antanas Šakinis.

Marín Laufey Davíðsdóttir úr HSK og keppandi Umf. Þjótanda mætti sterk til leiks og vann allar sínar glímur örugglega og vann þar með Freyjumenið í sjötta sinn. Hún er þar með orðin sigursælasti keppandi Íslandsglímunnar í kvennaflokki frá upphafi, ásamt Svönu Hrönn Jóhannsdóttur. Marín Laufey vann að auki Fegurðarverðlaun Íslandsglímu kvenna og hlaut að launum farandgripinn Rósina sem veitt er til þess keppanda sem þótti glíma best að mati þriggja manna dómnefndar. Þess má geta að Marín hefur unnið Rósina í öll sjö skiptin sem hún hefur tekið þátt í Íslandsglímunni.

Allir þrír keppendurnir um Grettisbeltið frá HSK voru að keppa á Íslandsglímu í fyrsta sinn. Þrisvar áður hefur HSK átt svo marga keppendur um beltið, en þrír keppendur frá HSK tóku þátt árin 1969, 1970 og 2002. Hreinn Heiðar Jóhannsson úr Umf. Laugdæla, sem tók í vetur fram glímubeltið eftir 10 ára hlé og varð á dögunum Skjaldarhafi Skarphéðins, hlaut fimm vinninga og varð í fjórða sæti. Tungnamennirnir Gústaf Sæland og Sigurður S. Ásberg Sigurjónsson voru með þrjá vinninga og enduðu í 5.-6. sæti.

Þórður Páll Ólafsson úr UÍA varð glímukóngur Íslands í fyrsta sinn og er hann sá 38. í röðinni frá upphafi til að að hljóta þann sæmdartitil.

Við upphaf Íslandsglímunnar heiðraði Glímusamband Íslands þrjá einstaklinga fyrir þeirra ómetanlegu sjálfboðaliðsstörf fyrir glímuna til áratuga og koma þeir allir frá HSK. Kristinn Guðnason á Þverlæk varð gerður að heiðursfélaga Glímusambandsins. Í 59 ára sögu GLÍ hafa nú 18 einstaklingar hlotið þessa viðurkenningu. Grímsnesingurinn Ólafur Oddur Sigurðsson, búsettur á Selfossi og Stefán Geirsson í Gerðum voru sæmdir gullmerki GLÍ.

Meðfylgjandi myndir tók Antanas Šakinis.

Nýjar fréttir