7.3 C
Selfoss

Alviðra – athvarf skóla í náttúrunni

Vinsælast

Vorið nálgast og náttúran fyllist af lífi. Útvera og náttúrumennt eru góðir samherjar. Fræðslusetrið í Alviðru býður upp á góða aðstöðu í lítilli kennslustofu í bæjarhúsinu og stórt athafnasvæði í hlöðunni. Þá veitir dagsdvöl í Alviðru aðgang að fjölbreyttri náttúru til að njóta og skoða. Hlíðar Ingólfsfjalls eru góð uppspretta fræðslu um jarðfræði. Sogið er kjörin uppspretta fræðslu um lífið í vatninu og þá fugla sem njóta þar lífsviðurværis. Öndverðarnesið allt er umvafið náttúrulegum birkiskógi og þar liggur gönguleið að mótum lindárinnar Sogið og jökulárinnar Hvítá. Blómskrúð er mikið og gróður fjölbreyttur til að njóta og greina þegar sumarið gengur í garð. Tæki og handbækur eru á staðnum til að styðja kennsluna. Hægt er að finna viðfangsefni sem passa mismunandi aldursskeiðum og efla börn til skilnings á gangi náttúrunnar.

Alviðra hefur um áratuga skeið, með hléum þó, þjónað sem skóli í náttúrinni. Í ár verður aðstaðan í Alviðru opin fyrir skóla á tímabilinu 1. maí til 15. júní og frá 20 ágúst til 30. september. Við reynum að aðstoða kennara sem koma með bekkinn sinn með sjálfboðaliðum, en starfsemin ber því miður ekki fastan starfsmann. Reynt verður að aðstoða kennara við skipulag og að finna viðfangsefni fyrir dagsferð gegn vægu gjaldi.

Þeir sem hafa hug á að nýta sér aðstöðuna í vor eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband eigi síðar en 15. apríl nk. Umsókn um aðstöðu sendist á netfangið tryggvifel@gmail.com.

Frekari upplýsingar veitir Tryggvi Felixson í síma 699 2682, tryggvifel@gmail.com.

Nýjar fréttir