7.8 C
Selfoss

Málþing um 16. aldar sálma á sunnudaginn

Vinsælast

„Gef þú oss þinn gæskufrið“ er yfirskrift að málþingi vegna nýrrar útgáfu sálmabóka 16. aldar. Verður það haldið í Skálholtsdómkirkju 7. apríl kl. 14. Í upphafi málþingsins verður minning dr. Karls biskups Sigurbjörnssonar heiðruð en hann er einn helsti hvatamaður að útgáfunni og vann ötullega að því. Hér eru gefnar út saman handbók og sálmabók Marteins biskups Einarssonar, upphaflega prentuð 1555, sálmabók Gísla biskups Jónssonar 1558, en þeir voru báðir biskupar í Skálholti, og loks sálmabók Guðbrandar biskups Þorlákssonar sem kom út á Hólum í Hjaltadal 1589. Sálmabækur Marteins og Gísla innihalda fáeina tugi sálma en í sálmabók Guðbrands eru 343 sálmar. Við 106 sálma í þeirri bók eru nótur við sálmana og er þetta fyrsta bók sem var prentuð á Íslandi og inniheldur nótur. Útgáfan var því merkur áfangi í íslenskri tónlistarsögu. Hér er að finna fyrstu stóru sálmasöfnin eftir siðbótina og lagði þessi arfur grunn að því sem kom síðar með æ fullkomnari sálmahefð á Íslandi á íslensku. Nægir þar að nefna sr. Hallgrím Pétursson á öldinni þar á eftir en hann byggði vissulega á þeirri hefð sem komin var. 

Sunnudaginn 7. apríl verða liðin 475 ár frá biskupsvígslu Marteins Einarssonar en hann var annar lútherski biskupinn í Skálholti og Gísli Jónsson var eftirmaður hans. Vígsludagur Guðbrandar Þorlákssonar var 8. apríl og minnumst við þess einnig með málþinginu. Kaffiveitingar eru á veitingastaðnum Hvönn í Skálholtsskóla í boði Skálholtsfélagsins hins nýja sem stendur að málþinginu. Einnig er hægt að kaupa sér hádegisverð þar fyrir málþingið. Vegna veitinga er hvatt til skráningar á skalholt.is en enginn aðgangseyrir er að málþinginu. Messa verður í Skálholtsdómkirkju kl. 11 þennan sunnudag og málþingið fer einnig fram þar í kirkjunni.

Félagar Karls biskups við gerð sálmabókarinnar eru Bragi Halldórsson, Elín Gunnlaugsdóttir, Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, Kristján Eiríksson og Jón Torfason. Útgáfunni verður fagnað með tónlistarflutningi, erindum og umræðum. Gunnlaugur Bjarnason mun syngja og Jón Bjarnason leikur undir og flytur orgelverk.

Nýjar fréttir