6.7 C
Selfoss

Hjólastígur í Reykjafjalli

Vinsælast

Meðan eg hefi dvalið á Heilsuhælinu í Hveragerði, reyni eg að fara í lengri göngur um helgar. Oft hefi eg gengið á Reykjafjall og ætíð haft gaman af. Að þessu sinni blasti við mér stígur sem sagður er vera göngu og hjólastígur ef marka má skilti eitt þar sem jafnframt er hvatt til góðrar umgengni. Ekki þykir mér stígagerð þessi vera í samræmi við góðar venjur við lagningu slíkra mannvirkja. Víða eru all margar beygjur jafnvel á fremur sléttu landi eða í litlum halla. Þar styttir venjulegur göngumaður sér leið með því að fara beinni leiðir og forðast með því óþarfa króka. Víða má sjá að gerðar hafi verið ýmsar hindranir eins og vélhjólamenn þykja spennandi en henta ekki gangandi fólki. Lauslega áætlað er að stígur þessi sé um 5 km að lengd og nær upp að einum hæsta tind Reykjafjalls.

Mér þykir sitthvað vera áfátt við stíg þennan. Hann er víða óþarfa brattur og er hætt við að töluverð spjöll verði af einkum í vorleysingum. Efsta jarðlagið sem þiðnar, á til að renna ofan á jarðklaka og má vænta að mikið rask verði af og verði ljótt ásýndar við minnstu yfirferð. Reykjafjallið er móbergsfjall þar sem jarðvegur er þunnur og að verulegu leyti mjög gróðurvana ofan kletta. Helst er að rekast á mosa og steinbrjóta sem verður að teljast mjög viðkvæmur gróður.

Nú er mér ekki kunnugt um hvort lagning þessa stígs sé í samræmi og samþykki landeigenda en vonandi er að svo sé. Líklegt er að drjúgur hluti Reykjafjalls, einkum vestari hluti fjallsins sé í eigu Garðyrkjuskólans og þar með ríkisins. Það hefði verið betra að vita til þess að verkefni þetta hafi verið samþykkt af viðkomandi yfirvöldum og hafi jafnvel verið borið undir þá nefnd sveitartjórnar sem með umhverfismál fara. En líklegt þætti mér að Landvernd þætti miður að sjá þessar framkvæmdir sem augljóslega geta orðið afdrifaríkar fyrir gróðurlítið umhverfi.

Göngu- og hjólastíga ber að leggja í náttúruna með fyllstu nærgætni. Það þarf að hafa fyrir því að gera ráðstafanir með því að bera möl og annað efni sem þörf er á og ræsi lögð þar sem þykir sérlega viðkvæmt til að draga úr áhrifum framkvæmdar og afleiðingum hennar. 

Guðjón Jensson

Nýjar fréttir