-7.2 C
Selfoss

Lúðrasveit Þorlákshafnar er Suðurlandsgersemi

Vinsælast

Lúðrasveit Þorlákshafnar fagnar 40 ára afmæli í ár en hún var stofnuð þann 23. febrúar 1984 og hefur starfað óslitið síðan. Verkefnin hafa verið gríðar fjölbreytt í gegnum tíðina – allt frá hefðbundinni lúðrasveitartónlist og 17. júní spilamennsku yfir í háklassík, popp og rokk! Og lúðrasveitin hefur á þessum árum fengið þó nokkra ólíka listamenn með sér til samstarfs. Allt þetta ætlar lúðrasveitin að ramma inn og gera skil í sannkallaðri sunnlenskri stórtónleika afmælisveislu þann 13. apríl nk. og bjóða með sér flunku nýjum gestum og einum gömlum alveg uppáhalds. Tónleikarnir verða haldnir í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar kl. 15 og eins og oft áður, þá munu félagar LÞ gjörbreyta íþróttasal í tónleikahöll. Miðasala er farin á fullt inn á tix.is og þætti okkur vænt um að sjá sem flesta Sunnlendinga fjölmenna og taka þátt í afmælisfögnuðinum.

Með lúðrasveitinni, sem telur um 45 meðlimi, munu koma fram hljómsveitin Skítamórall, Karlakór Selfoss, Jónas Sig og Vigdís Hafliðadóttir sem jafnframt er kynnir. Að auki koma fram Tómas Jónsson á hljómborð, Guðni Finnsson á bassagítar og Arnar Þór Gíslason á trommur. Stjórnandi er Lúðrasveitarinnar er Daði Þór Einarsson. Tónlistin er frá ýmsum tímabilum og eftir ólíka höfunda sem allir eru með tengingu við Suðurland. Elsta tónskáldið er fætt 1893 og hið yngsta 1992. Dagskráin er afar metnaðarfull og verulega fjölbreytt bæði í tali og tónum og mun hreyfa við öllum tilfinningaskalanum. Í gegnum kynningar á tónleikunum verður sunnlenskri tónlistarsögu gerð einhverskonar skil og óhætt að segja að þar er af nógu af taka.

Meðlimir Lúðrasveitar Þorlákshafnar er einkar samheldinn hópur sem vílar fátt fyrir sér og tekst á við ný verkefni af krafti og tilhlökkun. Það er þess vegna sem hægt er að fara í hvert stórverkefnið á fætur öðru. Sveitin hefur átt því láni að fagna að eðlileg endurnýjun á sér stað, þ.e. ungt fólk kemur í sveitina þegar það hefur náð ákveðnum aldri og þá líka 3. stigi í tónlist. Mikill meirihluti hljóðfæraleikara LÞ eru aldir upp í Þorlákshöfn og hafa lært á sín hljóðfæri hjá Tónlistarskóla Árnesinga hvar LÞ meðlimir eiga kennara. Vissulega eru líka einhverjir sem hafa flutt að og kynnst þessum félagsskap og er öllum tekið opnum örmum enda lúðrafangið breitt og heitt. Flest búa í Þorlákshöfn en svo er líka töluverður hluti sem býr á höfuðborgarsvæðinu og einhverjir í nágrannasveitarfélögum og því má segja að lúðrasveitin sé líka brú til brottfluttra. Meðlimir sveitarinnar spanna allan aldur, allt frá 18 ára og að sjötugu, andinn er frábær og þrátt fyrir aldursbilið er ekkert kynslóðabil. Alþýðuhljómsveit sem þessi er þverskurður mannlífs og gantast lúðrasveitarmeðlimir oft með að í raun sé sveitin sjálfbær að einhverju leiti með hjúkrunarfræðinga, rafvirkja, kennara á öllum skólastigum, framhalds- og háskólanema, félagsfræðing, grafískan hönnuð, markaðs- og menningarsérfræðing, lækni, leikara, rakara, flugfreyju og svo mætti lengi telja.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllu velgjörðarfólki Lúðrasveitar Þorlákshafnar þessi 40 ár, það er ómetanlegt að eiga ykkur að og geta gengið að því vísu að „fólkið sitt“ fjölmenni á tónleika. Við viljum líka þakka öllum þeim fjölmörgu hljóðfæraleikurum sem einhvern tíman hafa verið félagar í Lúðrasveitinni og að sjálfsögðu bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin aftur! Það má alltaf dusta rykið af hljóðfærinu og slást í þennan skemmtilega og gefandi félagsskap.

Fyrir hönd LÞ,
Ágústa Ragnarsdóttir formaður og Ása Berglind Hjálmarsdóttir varaformaður

Nýjar fréttir