-2.1 C
Selfoss

Hegðun og líðan barna – fræði í framkvæmd

Vinsælast

Katrín Þrastardóttir, teymisstjóri Art teymis Suðurlands, stendur fyrir ráðstefnunni Hegðun og líðan barna – fræði í framkvæmd, sem fram fer í Hótel Selfossi þann 11. apríl nk. Blaðamaður Dagskrárinnar náði tali af Katrínu og fékk að vita meira um ráðstefnuna.

Aðalverkefni ART-teymisins, sem samanstendur af Katrínu, Guðrúnu Herborgu Hergeirsdóttur og Álfheiði Ingólfsdóttur, er að halda úti fjölskyldu-ART, en það er úrræði fyrir fjölskyldur barna með hegðunar- og/eða tilfinningavanda. „Helsta markmið Fjölskyldu ART er að draga úr hegðunarvanda barna og bæta líðan þeirra með því að styrkja samskiptafærni fjölskyldunnar, auka tilfinningalegt læsi og tilfinningastjórnun og skerpa á gildum. Að auki heldur ART-teymi Suðurlands utan um þjálfun ART-þjálfara á Íslandi og höldum við réttindanámskeið í janúar og í ágúst ár hvert,“ segir Katrín.

„Hvað ef við höldum hana bara sjálfar?“

Aðspurð um hver hvatinn að ráðstefnunni hafi verið segir Katrín að þær í teyminu hafi sjálfar langað að komast á ráðstefnu þar sem fjallað væri um hegðun og líðan barna en  fljótlega komist að því að ekkert slíkt væri í boði. „Þá kviknaði þessi hugmynd, hvað ef við höldum hana bara sjálfar?“ segir Katrín og hlær. „Við hugsuðum með okkur að við í teyminu myndum ná að slá tvær flugur í einu höggi. Við gætum vakið athygli á ART á Íslandi, kynnt fjölskyldu ART og teymið en á sama tíma fengið að kynnast öðrum leiðum, en dagskráin er mjög fjölbreytt,“ bætir hún við.

„Við erum ansi stoltar af dagskránni en hún er þétt og uppfull af frábæru fagfólki. Talað verður um hegðun og líðan barna frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annars verður fjallað um ART, hegðun og líðan transbarna, áföll og tengsl, ofbeldi, einhverfu, veikindi foreldra og svo mætti áfam telja. Við munum svo bjóða upp á dýrindis hádegisverð á Riverside restaurant og bjóðum í drykk á Risinu vínbar að ráðstefnu lokinni. Ég hvet öll til að skoða dagskránna á www.isart.is eða á facebook síðu viðburðarins,“ segir Katrín.

Árangursríkar aðferðir, byggðar á fræðilegum grunni

Katrín segir titilinn Hegðun og líðan barna hafa fæðst snemma og í upphafi verið vinnutitill. „Fræði í framkvæmd bættist svo fljótt við en ég vildi hafa titilinn lýsandi fyrir efnistök ráðstefnunnar og hefur markmiðið allan tímann verið að fá fyrirlesara sem eru að segja frá hvernig er hægt að takast á við hegðun og líðan barna með árangursríkum aðferðum sem byggja á fræðilegum grunni.“

Frábær vettvangur til að víkka sjóndeildarhringinn og læra eitthvað nýtt

„Við vonumst eftir því að ráðstefnugestir komi út fullir af eldmóði til þess að gera sitt allra besta þegar þeir mæta börnunum okkar, hegðun þeirra og tilfinningum. Við sem vinnum að velferð barna verðum að muna að við erum kerfið og við þurfum að tryggja að kerfið mæti öllum börnum með árangursríkum leiðum. Ráðstefnan er vettvangur til þess að kynnast nýjum leiðum eða dusta rykið af leiðum sem við fagfólk þekkjum nú þegar. Við viljum fá öll sem hafa áhuga á hegðun og líðan barna. Ráðstefnan er frábær fyrir fagfólk sem vill styrkja sig í starfi, víkka sjóndeildarhringinn og læra eitthvað nýtt. Eins er hún gagnleg fyrir foreldra,“ bætir Katrín við.

Katrín bindur vonir við að fagfólk úr öllum stéttum sem vinni með börnum leggi leið sína á ráðstefnuna og nefnir sem dæmi starfsfólk úr skólum, skóla- og velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og löggæslu.

„Það sem við veitum athygli vex“

Erindi Katrínar á ráðstefnunni fjallar um að færa kastljósið af neikværði hegðun barna yfir á þá jákvæðu. „Við erum ansi dugleg að segja börnum hvað þau eiga ekki að gera, hvernig á ekki að fara með skap sitt og tilfinningar. Það gleymist gjarnan að leiðbeina þeim um hvað þau eiga að gera í staðinn, hvernig þau eigi að takast á við erfiðar tilfinningar og mótlæti. Það er mikið gagnlegra að þjálfa rétta hegðun heldur en að hamast við að fá þau til að hætta óhjálplegri hegðun. Ég mun fara í hvernig hægt er að færa kastljósið af neikvæðri hegðun yfir á þá jákvæðu og hvernig það sem við veitum athygli vex,“ segir Katrín að lokum.

Miðasala á ráðstefnuna fer fram á tix.is og dagskrána er að finna á heimasíðu ART teymisins www.isart.is.

Nýjar fréttir