7.3 C
Selfoss

Heitt vatn fannst við bakka Ölfusár

Vinsælast

Rannsóknarborholan SE-45, sem verið er að bora á bökkum Ölfusár við Selfossveg, hefur reynst gjöful, en um 85 gráðu heitt vatn fannst þar á 888 metra dýpi á fimmtudag í síðustu viku. Þetta vatn verður hugsanlega hægt að nýta til virkjunar, reynist það í nægilegu magni og efnainnihald þess í lagi.

Síðustu ár hefur svæðið á suðaustur bakka Ölfusár verið kannað, allt frá Tryggvaskála niður að Geitaðarnesi. „Við höfum verið að kanna svæðið með rannsóknarholum og benti hola, sem við boruðum við Tryggvaskála, á að á svæðinu væri jarðhita að finna, en þar hittum við ekki á neitt vatn. Okkar ráðgjafar, sem eru jarðfræðingar og sérfræðingar hjá ÍSOR, ráðleggja okkur um staðsetningu á þessum ransóknarholum og framkvæmdin er unninn með þeim,“ segir Sveinn Ægir Birgisson, formaður í eigna- og veitunefndar Árborgar.

„Við ákáðum að bora við Selfossveg fyrir aftan Hótel Selfoss út frá þeim upplýsingum og vísbendingum sem við höfum fengið við rannsóknarleit. Þar spilar holan við Tryggvaskála og SE-40, sem er nýjasta vinnsluholan okkar, sunnan við Slátturfélag Suðurlands stóran part,“ bætir Sveinn Ægir við.

Í janúar ræddi blaðamaður Dagskrárinnar við Sigurð Þór Haraldsson, veitustjóra hjá Selfossveitum um borholuna, þar sem hann kvað rannsóknir lofa góðu og sagði að nýjar lagnir ættu að gera þeim kleift að veita vatninu, sem hugsanlega fyndist í nýju holunni, beint niður kirkjuveg

Gæti tekið eitt ár að koma vatninu inn á kerfið, sé það vinnanlegt

Holan við Selfossveg er svokölluð rannsóknarborhola, með þeim möguleika á að breyta yfir í vinnsluholu, og fannst sem fyrr segir 85 gráðu heitt vatn í henni  á 888 metra dýpi fyrir helgi. „Það á þó eftir að gera fleiri og betri mælingar á hitastiginu til að fá nákvæmari niðurstöður. Auk þess á margt eftir að gerast á næstunni og á eftir að rannsaka hvað holan gefur í raun. Næst er að kanna hve mikið magn af vatni sé að finna þarna og hvernig efnainnihaldið í vatninu eru. Ef þær mælingar skila góðum árangri mun virkjun á holunni hefjast. Þá þurfum við að breikka og fóðra hana, ásamt því að setja niður dælu og byggja vinnsluhús. Það geti því liðið allt að ár þanngað til þetta vatn kæmst inná kerfið okkar ef það er vinnanlegt,“ segir Sveinn Ægir að lokum.

Nýjar fréttir