9.5 C
Selfoss

„Illa ígrunduð ákvörðun stjórnenda Hveragerðisbæjar“

Vinsælast

Að gefnu tilefni:

Á dögunum átti ég leið um Sunnumörk, húsnæði það í Hveragerðisbæ þar sem Bónus, bakarí, Bókasafnið í Hveragerði, lyfjabúð, vínbúð og ýmis önnur þjónustufyrirtæki eru til húsa. Þarna hefur verið upplýsingamiðstöð ferðamála ásamt póstþjónustu í rúma tvo áratugi. Nú bregður svo við að upplýsingamiðstöð þessari hefur verið lokað og opnuð í gömlu húsi í Breiðumörk 21, gegnt ráðhúsi Hveragerðisbæjar við aðalgötu bæjarins, sjá nánar hér.

Satt best að segja hrökk ég við að sjá þetta og átti sama dag gott samtal við starfsmann bókasafnsins um málið. Þessi bygging varð fyrir tjóni í jarðskjálftunum síðdegis 17. júní 2000 en þá var hafin bygging hússins. Skemmdust sökklar og alldjúp sprunga teygði sig þvert um norðaustur horn þess. Arkitektinn brást fljótt við og endurhannaði húsið með hliðsjón af þessum breyttu aðstæðum. Tókst honum vel til enda átti hann þá frábæru hugmynd að nýta sprunguna til að draga athygli ferðafólks að því. Því var upplýsingamiðstöðin á hárréttum stað og hefur notið mikillar aðdáunar meðal ferðamanna sem inn í það hafa komið. Þarna hafa ýmis ummerki verið sýnd, myndefni og sjá hefur mátt upptökur úr öryggiseftirlitsmyndavélum. Já, þarna mátti virða fyrir sér mátt náttúunnar að móta verk okkar mannfólksins.

Ég tel þessa ákvörðun stjórnenda Hveragerðisbæjar vera afar illa grundaða að flytja þessa starfsemi inn í gamalt hús sem nýtur ekki þessarar sérstöðu að draga til sín ferðafólk. Þarna er fremur þröngt um og lítið af bílastæðum, hvað þá fyrir stóra hópferðabíla með jafnvel yfir 70 farþegum hver. Í verslunarmiðstöðinni hefur fólk auk þess aðgang að upplýsingum og hreinlætisaðstöðu möguleika á að kaupa þjónustu og veitingar í bakaríinu, apótekinu og Bónus ásamt hraðbanka. Hefur allt þetta oft verið vel nýtt. Ég hef starfað sem leiðsögumaður síðan 1992 og oft er þarna tilefni að annarri Íslandsferð. Þarna hefur verið gott tilefni að hafa hádegishlé í lengri ferðum enda öll þjónusta til staðar.

Þá er ein hlið þessa máls sem snýr að rétti arkitektsins til hugverks síns. Hvort hafi verið samið við hann er mér ekki kunnugt en það er ekki hlutverk mitt að setja mig inn í þau mál.

Þegar við hugum að því nýjasta sem er að gerast í okkar ferðamálum þá vekja breytingarnar af völdum jarðelda og jarðskjálfta mikla athygli hvarvetna meðal erlendra ferðamanna. Við Íslendingar eigum að kappkosta að koma sem best á móts við gestina okkar og koma upp sem bestri aðstöðu fyrir þá til skoðunar og að fræðast um þessi miklu öfl sem gjörbreyta ýmsu á stuttum tíma. 

Í Grindavík er t.d. laskað íþróttahús með djúpri gjá og það hús verður vart notað í þágu íþrótta næstu árin og jafnvel áratugi. Vel mætti hugsa sér að koma þarna upp mjög góðri aðstöðu fyrir ferðafólk að virða fyrir sér þessi skelfilegu ummerki sem eru varin fyrir ytri öflum náttúrunnar, veðri og vindum meðan byggingin er traust og þakið þétt.

Vil ég vekja athygli allra á þessu máli og hvet til að eiga samstarf við sem flesta hlutaðeigandi hagsmunaaðila. Beini ég sérstaklega til bæjaryfirvalda Í Hveragerðisbæ að taka þessa ákvörðun til endurskoðunar og færa til fyrra horfs enda er upplýsingaþjónusta fyrir ferðafólk einstaklega vel í sveit sett þar sem hún hefur verið í meira en tvo áratugi.

Vinsamlegast,

Guðjón Jensson,
þýskumælandi leiðsögumaður síðan 1992
Staddur á Heilsuhælinu í Hveragerði.

Nýjar fréttir