0.2 C
Selfoss

Hætti í skóla 16 ára til að safna fyrir nýju hjóli

Vinsælast

Selfyssingurinn Ásta Petrea Sívertsen Hannesdóttir er þjálfari Víkur og UMF Selfoss í motocross og hefur sjálf átt góðu gengi að fagna í íþróttinni, sem og enduró. Hin metnaðargjarna Ásta Petrea er 24 ára og er búsett í Hveragerði ásamt kærasta sínum Benjamín og syni þeirra Evían Andra. Auk þjálfara- og móðurhlutverksins á hún og rekur fyrirtækið Augnháralengingar.is og leggur stund á nám við félagsvísinda- og lagadeild hjá Keili. Dagskráin ræddi við Ástu, sem nýlega landaði sínum stærsta styrktarsamning til þessa, við O´NEAL í Evrópu, en hún náði 3. sæti á Íslandsmeistaramóti árið 2023 og hlaut sama ár tilnefningar bæði sem akstursíþróttakona ársins og íþróttakona Árborgar.

Pabbi ekki misst af einni keppni

Ásta kynntist motocross fyrst þegar hún var 14 ára. „Vinur minn var nýbúinn að kaupa sér hjól og þegar ég sá það var það fyrir mér eins og að sjá gull. Ég fékk að starta hjólinu inni í bílskúr hjá honum og ég var fljót að sannfæra foreldra mína um að leyfa mér að kaupa hjól. Pabbi var mjög til í þetta en það var aðeins erfiðara að sannfæra mömmu. Um leið og ég byrjaði að hjóla urðum við pabbi bæði alveg veik fyrir sportinu. Hann skutlaði mér alltaf upp á braut og horfði á mig hjóla og hefur ekki misst af einni motocross keppni hjá mér. Ég hætti í skóla 16 ára til að safna fyrir nýju hjóli, kláraði semsagt ekki framhaldsskóla en lærði á þessum tíma augnháralengingar og var ég með þeim fyrstu í þeim bransa á Íslandi og vann mikið við það bæði á Selfossi og í Reykjavík. Ég byrjaði að æfa motocross árið 2014 á Selfossi. Þjálfarinn minn á þeim tíma, Axel Sigurðarson, kom mér af stað að keppa á Íslandsmótinu. Ég tók svo fyrstu enduro keppnina árið 2020 sem endaði frekar illa með biluðu hjóli og ætlaði aldrei aftur að taka þátt en endaði með því að taka þátt í Íslandsmeistaramótinu árið 2022.“

Ljósmynd: Aðsend.

„Um leið og ég fékk trú á sjálfri mér varð ég óstöðvandi“

Síðan Ásta byrjaði að keppa hefur hún fimm sinnum keppt á fullri mótaröð og segir hún hvert ár hafa verið lærdómsríkt. „Ég sá enga framför árin 2018-2019 og þá tók ég ákvörðun að fara af 250cc hjóli og á 125cc, til að læra að hjóla alveg upp á nýtt. 125cc hjól eru tvígengis og þarf maður að hafa meira fyrir því að hjóla á þeim, semsagt skipta mikið um gíra og halda hjólinu á snúning, en 250cc er þyngra hjól og þarf ekki að skipta jafn mikið um gíra og það þarf ekki að vera á háum snúning. Það hefur allt gengið þrusuvel eftir að ég færði mig yfir á tvígengishjól. Ég hef einnig unnið mikið í andlegu hliðinni, hún gleymist oft. Um leið og ég fékk trú á sjálfri mér varð ég óstöðvandi,“ segir Ásta og brosir.

Árið 2020 var hún svo beðin um að þjálfa yngri flokk á Selfossi. „Þá fór ég í ÍSÍ þjálfaranám og byrjaði svo að þjálfa hjá Vík þegar ég var ólétt, hef þjálfað síðan þá en mun taka pásu frá þjálfuninni í ár til að fá meiri tíma til að æfa sjálf,“ segir Ásta.

Mikilvægt að halda starfinu gangandi

En ný brú yfir Ölfusá setur strik í reikninginn hvað æfingasvæði Selfoss varðar. „Vegurinn að nýju brúnni fer yfir okkar svæði þannig við missum brautina á Selfoss, en við erum að vinna úr þessum málum með Árborg og það verður auglýst opinberlega þegar við höfum fengið endanlega niðurstöðu í það mál. Við erum með virkt barnastarf á Selfossi svo það er mikilvægt að fá að halda starfinu gangandi og hafa aðstöðu til þess. Það eru brautir nálægt okkur í Þorlákshöfn og í Bolaöldum sem við nýtum okkur á meðan.“ En Ásta segir að í motocross sé mikilvægt að iðkendur hjóli á viðurkenndum akstursíþróttasvæðum til þess að þau séu tryggð ef eitthvað kemur fyrir, en þá þurfi líka að hafa tryggingar sem gilda bæði á æfingum og í keppnum.

Draumur að hafa innanhússaðstöðu

En hvernig getur samfélagið stuðlað að og stutt áframhaldandi velgengni í motocross og enduro?Samfélagið þarf að viðurkenna að jaðarsport er íþrótt og að við þurfum sama stuðning og aðrar íþróttagreinar. Í motocrossi eru krakkar sem finna sig ekki í öðrum íþróttagreinum og íþróttir fyrir börn eru gríðarlega mikilvæg forvörn. Draumurinn er að hafa innanhússaðstöðu, þá væri sportið í gangi allan ársins hring.“

Ljósmynd: Aðsend.

„Finnst ég smá klikkuð að hafa farið út svona snemma“

Í nóvember árið 2021 fæddist Evían Andri en þegar Ástu bauðst að fara til Ítalíu í æfingaferð og æfa undir leiðsögn fyrrum GP meistaranna Brian Jörgensen og Roman Jelen í mars 2022, gat hún ekki annað en stokkið á það einstaka tækifæri. „Þetta var fyrsta æfingaferðin mín erlendis og ég var mjög spennt fyrir henni, Evían Andri var heima með pabba sínum og pabbi minn fór með mér út. Þegar ég hugsa um ferðina í dag þá finnst mér ég smá klikkuð að hafa farið út svona snemma eftir fæðingu því ég var ekki í neinu formi þegar ég kom út, en ég sé ekki eftir neinu. Ég er að fara aftur út til Ítalíu að æfa núna 27. mars yfir páska og er í miklu betra formi fyrir ferðina núna,“ segir Ásta.

Aðeins meiri pressa og miklu meira sjálfstraust

Nýverið gerði hún svo sinn stærsta samning hingað til, við O´NEAL í Evrópu. „Ég skrifaði undir árs samning við O‘NEAL. Samningurinn við O’NEAL í Evrópu er mjög mikilvægur fyrir mig og hefur mikla þýðingu fyrir minn feril sem íþróttakona. O’NEAL er þekkt fyrir að framleiða hágæða motocross-búnað. Það er skemmtilegt að vera partur af teyminu þeirra og ég er spennt að sjá hvað árið hefur upp á að bjóða með O’NEAL á bak við mig.“ Aðspurð um áhrif samningsins á hennar þjálfun og keppnisaðferðir segir hún að hún þurfi alltaf að leggja sjálf á sig vinnuna í að verða betri hjólari. „Hvort sem ég er á samning eða ekki. En það kemur auðvitað aðeins meiri pressa en líka miklu meira sjálfstraust.“

„Reyni alltaf að horfa á jákvæðu hliðarnar“

Þegar Ásta er spurð um áskoranir sem hún þurfti að kljást við á Íslandsmótinu í fyrra rifjar hún upp lærdómsríkt atvik sem átti sér stað í síðustu keppninni. „Af einhverjum ástæðum fannst mér eins og ég væri búin að hjóla seinasta hringinn og fór út af brautinni einum hring of snemma. Svo sé ég pabba og Benjamín koma hlaupandi, svo svakalega hissa og öskrandi á mig að fara aftur inn, að ég væri ekki búin. Ég brunaði aftur inn í brautina en missti tvö stig sem var fúlt, en ég hugsaði strax að ég myndi læra af þessu. Ég reyni alltaf að horfa á jákvæðu hliðarnar af öllu því neikvæða sem getur komið fyrir.“

En hvernig tilfinning var að hljóta þessar tilnefningar, sem akstursíþróttakona ársins og írþóttakona Árborgar? Það er svakalega góð hvatning og frábært að standa uppi á sviði með öllum flottu íþróttakonunum í Árborg og vera ein af þeim,“ segir Ásta brosandi.

Ljósmynd: Aðsend.

Mikilvægt að kunna að samgleðjast

En hvaða hugmyndafræði notar Ásta við þjálfunina, bæði fyrir sig og liðin sem hún þjálfar? „Ég byrja alltaf á að þjálfa góða grunntækni, það er lykilatriði. Góð staða á hjólinu og góð bremsutækni, svo má bæta í hraðann hægt og rólega. Ég fylgist líka með andlegu hliðinni hjá krökkunum og passa að kenna þeim að samgleðjast öðrum.“

Þá segir hún að það þurfi gríðarlega mikið jafnvægi á milli líkamlegrar og andlegrar getu í erfiðum heimi motocross og enduro.Við vorum til dæmis þrjár stelpur í baráttu í öllum keppnum í sumar og það voru yfirleitt aldrei sömu úrslit í umferðunum. Við þurfum allar að halda haus og máttum engin mistök gera, en hausinn var oft að spila með okkur og falla undir pressu. Alveg eins gerðum við þau mistök að detta eða gera smá klaufavillur á hjólinu en það var oft bara hjólalengd á milli okkar, svo það mátti ekkert klikka því þá var bara næsta komin framúr.“

Bæta tímana og þá kemur rest

Aðspurð um markmið hennar fyrir komandi tímabil, bæði persónuleg og í því skyni að vekja meiri athygli á íþróttinni segir Ásta: „Markmiðið mitt er að verða Íslandsmeistari en ég legg meiri áherslu á að verða hraðari en ég var í fyrra, bæta tímana mína í öllum keppnum frá því í fyrra og þá kemur rest. Svo langar mig að taka þátt í B flokk með strákunum. Við héldum stelpuhjóladag á Selfossi í fyrra, þar mættu stelpur með hjól að æfa og hjóla saman, svo grilluðum við og áttum góða stund saman. Við komum til með að halda aftur svona dag í sumar. Ég reyni að vera dugleg á Instagram og Tiktok að auglýsa sportið,“ en Ásta bendir á að áhugasömum um sportið sé velkomið að senda henni skilaboð á Instagram, þar sem hana er að finna undir nafninu asta.sivertsen.

Ásta bætir við að Íslandsmeistaramótið í enduro hefjist í apríl og Íslandsmeistaramótið í motocrossi í júní. „Hægt er að sjá mótaröðina á MSÍ/ mótorhjóla & snjósleðasamband Íslands á Facebook og á mot.msisport.is. Ég skora á þig, kæri lesandi, að sjá eina motocross keppni í sumar,“ segir Ásta og brosir breitt.

 Áttu góð ráð fyrir framtíðar motocross- og endurokeppendur? „Þinn stærsti keppnisnautur ert þú sjálf/ur. Aldrei bera þig saman við einhvern annan, þú þarft að sigra sjálfan þig og þá sérðu árangur,“ segir Ásta að lokum.

Nýjar fréttir