0 C
Selfoss

Glæsileg folaldasýning Hrossaræktarfélags Flóahrepps

Vinsælast

Sunnudaginn 3. mars síðastliðin var hin árlega folaldasýning Hrossaræktarfélags Flóahrepps haldin. Skráning folalda á sýninguna var mjög góð og mæting áhorfenda sömuleiðis, en talið er að um 140 manns hafi lagt leið sína í Sleipnishöllina. Alls komu félagsmenn með 40 folöld til að sýna, 20 hestfolöld og 20 merfolöld.

Dómari sýningarinnar að þessu sinni var hrossaræktandinn og tamningamaðurinn Ævar Örn Guðjónsson. Ævar gaf þóknun sína sem dómara til æskulýðsnefndar hestamannafélagsins Sleipnis.

Í hryssuflokki komu sem fyrr segir fram 20 framtíðargæðingar. Folöldin eru dæmd á skalanum 1-5, fyrir fjóra þætti: Yfirlína, samræmi, hreyfing og fjölhæfni.

Sex efstu hryssurnar komu síðan aftur til úrslita þar sem frekari samanburður fékkst og gat því endanleg röðun breyst frá niðurstöðu forkeppni.

Í fyrsta sæti eftir úrslit varð Skuggadís frá Langsstöðum, brún að lit. Faðir hennar er Skugga-Sveinn frá Austurhlíð 2 og móðir Nótt frá Langsstöðum. Skuggadís er ræktuð af og í eigu Ingibjargar Einarsdóttur og Hjálmars Ágústssonar.

Í öðru sæti varð Harpa frá Seljatungu, rauð að lit. Faðir hennar er Sindri frá Hjarðartúni og móðir er Fiðla frá Seljatungu. Harpa er ræktuð af og í eigu Ólafs Jósepssonar.

Í þriðja sæti varð síðan Perla frá Syðra-Velli, móbrún að lit. Faðir hennar er Spuni frá Vesturkoti og móðir Spöng frá Syðra-Velli. Perla er ræktuð af og í eigu Jóns Gunnþórs Þorsteinssonar.

Í fjórða sætinu varð Farsæl frá Læk, móbrún að lit. Faðir hennar er Vísir frá Ytra-Hóli og móðirin er Frægð frá Brúnastöðum. Farsæl er ræktuð af og í eigu Ágústs Guðjónssonar.

Í fimmta sæti varð Erla frá Syðra-Velli, brún að lit. Faðir hennar er Herkúles frá Kolsholti 2 og móðir er Mósa frá Syðra-Velli. Erla er ræktuð af og í eigu Jóns Gunnþórs Þorsteinssonar.

Í sjötta sæti varð loks Elding frá Brúnastöðum 2, rauðblesótt að lit. Faðir hennar er Lér frá Stóra-Hofi og móðir er Freydís frá Brúnastöðum. Elding ræktuð af og í eigu Ketils Ágústssonar.

Sigurvegarar í hryssuflokki: Ingibjörg Einarsdóttir (Skuggadís frá Langsstöðum), Ólafur Jósepsson (Harpa frá Seljatungu), Jón Gunnþór Þorsteinsson (Perla frá Syðra-Velli), Ólöf Ósk Magnúsdóttir (Völva frá Hrygg 2 – Vinsælasta folaldið að mati áhorfenda) og Atli Geir Jónsson formaður HRFF.

Glæsilegasta folaldið að mati áhorfenda var síðan valið úr hryssuflokknum en það var hún Völva frá Hrygg 2 sem er ræktuð af og í eigu Ólafar Óskar Magnúsdóttur og Steindórs Guðmundssonar. Völva sem er brúnskjótt er undan Vísi frá Kagaðarhóli og Hrafnhettu frá Stekkum.

Í hestaflokki voru sömuleiðis sýndir 20 framtíðargæðingar og komu efstu sex aftur til úrslita líkt og í hryssuflokki.

Í fyrsta sæti eftir úrslit varð Tindur frá Miðholti, brúnn að lit. Faðir hans er Blakkur frá Þykkvabæ og móðir Mökk frá Selfossi. Tindur er ræktaður af og í eigu Gunnars Inga Jónssonar og Jóns Sigursteins Gunnarssonar.

Í öðru sæti varð Mímir frá Miðholti, rauðblesóttur leistóttur að lit. Faðir hans er Magni frá Stuðlum og móðir er Urður frá Kirkjubæ. Mímir er ræktaður af og í eigu Jóni Sigursteini Gunnarssyni.

Í þriðja sæti varð síðan Bjartur frá Selfossi, rauðblesóttur að lit. Faðir hans er Blesi frá Heysholti og móðir Dropadís frá Miðey. Bjartur er ræktaður af og í eigu Jóhönnu Haraldsdóttur og Sigurðar Rúnars Andréssonar.

Í fjórða sætinu varð Kaldalón frá Austurási, rauðtvístjörnóttur að lit. Faðir hans er Glampi frá Skeiðháholti og móðir er Krafla frá Austurási. Kaldalón er ræktaður af og í eigu Hauks Baldvinssonar og Ragnhildar Loftsdóttur.

Í fimmta sæti varð Brúni frá Selfossi, brúnn að lit. Faðir hans er Vísir frá Ytra-Hóli og móðir er Harða frá Selfossi. Brúni er ræktaður af og í eigu Sverris Ágústssonar.

Í sjötta sætinu varð loks Kraftur frá Langsstöðum, leirljós að lit. Faðir hans er Pensill frá Hvolsvelli og móðir er Orka frá Bár. Kraftur er ræktaður af og í eigu Hjálmars Vilhelms Rúnarssonar.

Sigurvegarar í hestaflokki: Atli Geir formaður HRFF, Gunnar Ingi Jónsson, Stella Rún Gunnarsdóttir (Tindur frá Miðholti), Jón S. Gunnarsson, Kolbrún Edda Bjarnadóttir (Mímir frá Miðholti) og Jóhanna Haraldsdóttir (Bjartur frá Selfossi)
Ljósmyndir: Ágúst Ingi Ketilsson.

Nýjar fréttir