5.6 C
Selfoss

Bikarmeistarar Selfoss á leið á Norðurlandamót

Vinsælast

Helgina 24. – 25. febrúar fór fram Bikarmót eldri flokka í hópfimleikum og þar var meðal annars keppt um bikarmeistaratitil unglinga og fullorðinna. Selfoss átti þar lið í unglingaflokki, 1. flokk.

Í 1. flokknum var þó meira undir en einungis bikarmeistaratitillinn þar sem einnig var keppt um þátttökurétt á Norðurlandamóti unglinga í apríl en tvö hæstu liðin í 1. flokki öðluðust þátttökurétt á Norðurlandamóti, sem fer fram í Svíþjóð.

Útgeislun og leikgleði smitaðist til áhorfenda

Stúlkurnar í 1. flokki hafa lagt mikla vinnu á sig síðastliðna mánuði og stefndu ótrauðar að því markmiði að ná inn á Norðurlandamót. Þær voru því vel upplagðar og tilbúnar til þess að sýna hvað í þeim býr á keppnisdag. Þær byrjuðu daginn á dýnu og sýndu þar stórgóðar æfingar, hreinar og öruggar. Næst var trampólínið þar sem aftur skein í gegn hversu mikið þær höfðu æft fyrir þennan dag, öryggið var mikið og lítið um mistök. Þær enduðu mótið á gólfæfingum og þar áttu þær stórkostlegar æfingar þar sem útgeislunin og leikgleðin smituðust yfir á áhorfendur, sem voru margir hverjir klæddir vínrauðu enda fjölmargir sem lögðu leið sína í Egilshöllina að hvetja stelpurnar.

Einlæg gæeði þegar uppskera erfiðisvinnunnar varð ljós

Á stórum mótum sem þessum eru einkunnirnar ekki allar gefnar upp og því veit enginn hverjar niðurstöður mótsins eru fyrr en kemur að verðlaunaafhendingunni. Það var því mikil spenna þegar bikarmeistararnir voru tilkynntir og eftirvæntingin mikil. Sigurvegarar í fyrsta flokki og þar með komnar með þátttökurétt á Norðurlandamóti unglinga voru Selfoss! Fögnuðurinn braust út og gleðin var einlæg – markmiðinu náð og þær að uppskera eftir alla vinnuna.

Stökkþjálfarar liðsins eru Tanja Birgisdóttir og Mads Pind en Margrét Lúðvígsdóttir þjálfar þær í dansi og hefur notið aðstoðar Julie Bjornskov í vetur. Þá hefur Sally Ann Vokes séð um þá vinnu sem snýr að andlega þættinum í fimleikum, auk þess að vera stúlkunum stuðningur á æfingum. Unnur Þórisdóttir er sjúkraþjálfari liðsins og hefur komið reglulega inn á æfingar til að aðstoða stúlkurnar. Þetta teymi hefur haldið vel utan um stúlkurnar í vetur og eiga stórt hrós skilið fyrir sín störf.

UMFS

Nýjar fréttir