11.7 C
Selfoss

Einu sinni á Eyrarbakka í mars

Vinsælast

Fyrsta leiksýning Leikfélags Eyrarbakka, Einu sinni á Eyrarbakka,  er frumsamið verk sem verður sýnt í Byggðasafni Árnessinga á Eyrarbakka í mars.

Leiksýningin er samin af félögum Leikfélags Eyrarbakka, sem hér segir:

Óhugur eftir Guðmund Brynjólfsson Lífsbaráttan í sjávarþorpum Íslands var um aldir hörð og sambúð manns og sjávar ströng. Eyrarbakki stóð verr en margur annar staðurinn vegna vondra lendingarskilyrða í brimasamri fjörunni. Það hindraði þó ekki dugmikla sjósóknara, þeir drógu gull úr greipum Ægis, en guldu oft dýru verði. Heima biðu konur og börn í skelfilegri óvissu. Leikþátturinn Óhugur bregður upp svipmynd úr alþýðuhúsi á Eyrarbakka um aldamótin 1900. Þar fylgjumst við með þremur ættliðum kvenna bíða þess sem verða vill.

Eyrarbakkasyrpa eftir Huldu Ólafsdóttur. Fjórir leiknir þættir, þar á meðal leikgerð upp úr bók Eyrúnar Ingadóttur um Þórdísi ljósmóður, ásamt rímuðum brag sem tengir þættina saman. Þættirnir fjalla um fólk sem lifði og starfaði á Eyrarbakka frá miðri 19. öld og eitthvað fram á þá 20. Koma faktorshjónanna Guðmundar Thorgrimsson og Sylviu konu hans á Eyrabakka árið 1847 markaði nýja tíma í sögu Eyrarbakka. Þau báru með sér nýja, ferska menningarstrauma frá Kaupmannahöfn og starfshættir verslunarinnar breyttust til batnaðar. Eugenia dóttir þeirra giftist Peter Nielsen sem tók við faktorsstöðinni af Guðmundi. Hún var lífið og sálin í félags- og líknarmálum þorpsins, formaður Kvenfélagsins í mörg ár eftir stofnun þess.

Myndbandið Lilja mín, hannað af Sellu Páls, fjallar um skáldað líf Lilju frá æsku á Eyrarbakka. Söngtexti eftir Sellu Páls. Lag eftir Norbert Schultze. Gerður Eðvarðsdóttir syngur.

Bíltúrinn eftir Sellu Páls. 6. september 1944 brast Ölfusárbrú á Selfossi. Eftir það var fólk og vörur ferjað yfir ána. 12. – 14. sept. hljóp það mikill vöxtur í ána að öll umferð yfir hana stöðvaðist og varð síðan mjólkurlaust á Eyrarbakka. Leikþátturinn Bíltúrinn hefst á Eyrarbakka 15. september 1944 þegar Þorsteinn er að leggja af stað í bíl sínum á Selfoss í von um að fá þar mjólk. Njörður og Lilja fá far með honum, en eitt og annað kemur upp á leiðinni.

Leikstjóri er Hulda Ólafsdóttir, Tónlist er eftir Birkir Örvarsson. Söngtextar í Eyrarbakkasyrpu og í samsönglögunum eru eftir Huldu Ólafsdóttur. Leikarar eru þau Álfrún Auður Bjarnadóttir, Auður Elín Hjálmarsdóttir, Birkir Örvarsson, Eyrún Óskarsdóttir, Gerður Eðvarðsdóttir, Guðbjörg Marý Eyjólfsdóttir, Guðrún Ósk Guðjónsdóttir, Jón Ómar Sigfússon, Margrét Magnúsdóttir, Margrét Ósk Óskarsdóttir, Sigrún Þuríður Runólfsdóttir, Sigurbjörn Björnsson og Snæfrost Sara Arnar. Verkefnastjóri er Sesselja Pálsdóttir.

Leikverkið er styrkt af SASS í gegnum Uppbyggingarsjóð sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands. Viðburðurinn verður frumsýndur í Byggðasafni Árnesinga, Búðarstíg 22 á Eyrarbakka þann 9. Mars, en uppselt er á frumsýningu. Næstu sýningar verða 16. mars kl. 20 og 17., 23. og 24. kl. 16.

Miðar verða ekki seldir við innganginn en þeir fást á tix.is og sömuleiðis er hægt að panta miða í síma Tix 551-3800, þar sem opið er alla virka daga á milli 12:00 og 16:00.

Nýjar fréttir