0.2 C
Selfoss

Selfosskirkja er þér opin

Vinsælast

Góð kirkjusókn var um hátíðarnar í Selfosskirkju. Það er gott til þess að vita að kirkjusókn er almennt að vaxa á ný. Til samanburðar á milli ára hefur hún aukist verulega og er það vel.  Þá er ánægjulegt að sjá hvað fermingarbörnin og aðstandendur  þeirra eru dugleg að mæta í kirkju. Það má líka gleðjast yfir því hvað hátt hlutfall barna vill ganga í fermingarfræðslu, meðtaka kristna trú og góða siði og vilja fermast.

Allir prestarnir, sr. Gunnar, sr. Guðbjörg og sr. Ása eru fyrrverandi nemendur dr. Gunnlaugs A. Jónssonar sem var gestur á þriðjudagssamverustund.

Mjög öflugt æskulýðsstarf er í Selfosskirkju undir stjórn Sjafnar Þórarinsdóttur æskulýðsfulltrúa. Börn frá 6 ára aldri til 15 ára hafa notið þess að stunda gefandi og skemmtilegt starf sem þar er í boði. Þá er það þekkt, að öflugt og litríkt tónlistarlíf hefur ávallt verið í Selfosskirkju. Starfandi eru þrír kórar, barna-,unglinga- og kirkjukór. Kirkjan hefur boðið uppá söngnámskeið fyrir yngstu börnin, byrjendur, sem hafa verið vel sótt og eru ókeypis. Fyrirhuguð eru söngnámskeið sem auglýst verða sérstaklega. Þá hefur kirkjukórinn staðið fyrir opnum söngstundum fyrir almenning í kirkjunni, sem hafa mælst vel fyrir. Mjög önnur áhugaverð og fjölbreytt verkefni eru á verkefnalista kóranna. Aðal stjórnandi er Edit A. Molnár og henni til aðstoðar er Kolbrún Hulda Tryggvadóttir.

Barna- og unglingakór Selfosskirkju, Edit A. Molnár stjórnar.

Þá hefur kirkjan staðið fyrir samverustundum annan hvern þriðjudag þar sem einn gestur kemur í heimsókn og segir sína sögu. Mjög áhugaverð og skemmtileg samvera. Fram undan er aðalsafnaðarfundur sem auglýstur verður sérstaklega.

Sóknarnefndin er með mörg verkefni í gangi til að bæta og styrkja kirkjuna sjálfa. Við erum að taka saman hvað þurfi að gera næstu þrjú árin, bæði gagnvart útliti utan dyra og lagfæringar ýmiskonar.  En eins og vitað verða eru sjötíu ár frá vígslu Selfosskirkju árið 2026.

Kæru sóknarbörn og allir aðrir, komum í Selfosskirkjuna og njótum samverunnar.

Björn Ingi Gíslason,
formaður sóknarnefndar

Nýjar fréttir