7.3 C
Selfoss

Óræð fágun sem skilur eftir sig síkvikar myndir

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Hannes Lárusson

Hannes Lárusson er myndlistarmaður sem hefur unnið með margvíslega miðla og haldið tugi sýninga, bæði heima og erlendis. Hann hefur jafnframt stundað rannsóknir á íslenskum byggingararfi ásamt lykil handverksþáttum um áratuga skeið. Hannes er stofnandi og annar af rekstraraðilum Íslenska bæjarins að Austur Meðalholtum í Flóahreppi þar sem hann ólst upp fyrstu árin.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Það vill svo til að þessa dagana er ég einmitt að endurlesa Heimsljós eftir Halldór Laxness, sem ætti að teljast mjög lestrarhestaleg bók. Endurlestur kemur oftar en ekki til af tilviljun. Bækur liggja óvart á borði, einhver minnist á bók í samræðu eða kjölur og kápa á bókasafni eða fornbókasölu vekja minningar og glæða endurfundi. Góðar bækur eiga mörg ísmeygileg líf. Heimsljós er enn sprelllifandi; átakalaust flæði, kyngimagnað hugmyndaflug, harmrænar myndhverfingar, oftar en ekki í yndislegum upphæðum um leið og þær steyta á skerjum hins miskunnarlausa veruleika, ýkjukennt leikhús sem nær að spegla samfélag manna og alvöru lífsins jafnt í dag og þegar bókin kom fyrst út, og tekst því að veiða lesandann í ómótstæðilegan orðavef. Alvöru skáldskapur og listsköpun er líklega í reynd kraftbirtingarhljómur guðdómsins og heimsljós.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Bækur með aðdráttarafl og framtíð handan við líftíma dægurflugunar hafa til að bera tærleika tungumálsins, fágun og uppbrot á víxl, og sprengikraft hugmyndaflugsins sem skilur eftir eins konar hugrænt bergmál. Bækur sem standa undir þessu eru ekki síst margar módernískar ljóðabækur þar sem er að finna þennan kvika tærleika í hófstilltum myndum. Enginn verður svikinn af því að fletta í gegnum Lauf og stjörnur (1966) efir Snorra Hjartarson og Í ljósmálinu (1970) eftir Einar Braga í þessu sambandi. Hin fallega látlausa bók Flateyjarfreyr (1978) eftir Guðberg Bergssonar, þar sem fágun og tærleiki dansa við uppbrot og óvænt sjónarhorn, reynist oft snúa sínum mjóa kili fram og kápunni upp. Sama má segja um útvaldar bækur eftir George Orwell, Aldous Huxley, Philip K. Dick og Samuel Beckett þar sem yfirnáttúrulegri glöggskyggni og kraftbirtingarhljómi guðdómsins er beitt á innri víddir mannlegs samfélags í víðu myndrænu samhengi og goðsögur samtímans skrifaðar.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Þessar bækur (sem ég nefni) eru reyndar ekki langt frá þeim sögum sem bergmáluðu í baðstofunni í Austur Meðalholtum. Þar þurfti yfirleitt ekki að eyða tíma í að lesa bækur í hljóði því lesið var upphátt á nær hverju kvöldi úr bókum sem hæfðu öllum aldurshópum og voru þar þjóðsögur Jóns Árnasonar og ævintýri H. C. Andersen í fyrirrúmi og dundað sér undir lestrinum. Ef ekki var lesið upphátt voru myndabækur góðir félagar og hægt að hringa sig upp í rúmi með Dísu ljósálf, tilfallandi hefti af Andrés önd eða Sígildum sögum sem voru styttar og myndskreyttar útgáfur af frægum skáldverkum, og urðu  þar m. a. fyrstu kynnin af Hamlet, Illiónskviðu og Moby Dick. Barnabækur hafa aldrei misst aðdráttaraflið og sumar í þeim flokki byrjaði ég ekki að lesa fyrr en á fullorðinsárum. Þær eru orðnar all margar ferðirnar á kaffihús Norræna hússins í gegnum árin og á bakaleiðinni kíkt við á bókasafninu og þá gjarnan bók um múminálfana eftir Tove Janson tekin með oft í bland við bækur um norræna byggingarlist og hönnun. Góðar barnabækur hæfa aldrinum frá 1árs til100 ára +. Reyndar mætti líkja sjálfri heimsókninni í Norræna húsið, hvert sinn, við það að blaða í gegnum ljóðabók og lesa fallegt ljóð.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Einn þáttur í bóklestri er það sem kalla má „dellulestur” eða lestur sem ræðst af ástríðufullum áhuga þar sem bækur eftir tiltekna höfunda eru lesnar ein af annarri eða eitthvað tiltekið svið er tekið fyrir og hrannast þá oft upp bækur og greinar í mismunandi formum, ýmist á pappír eða tölvuskjá og keppikeflið er þá að lesa sem hraðast og stundum látið duga að skanna efnið eins og fluguveiðimaður í von um veiði.

Geturðu tengt þessa gerð af lestri við uppáhaldshöfunda eða verk?

Það sem kalla má alvöru bókmenntaverk verða ekki lesin með þessum hætti, heldur meira í ætt við lúslestur, því þar skiptir hver setning máli og oft verður ekki hönd á festandi flæðandi hugmyndaauðgi og óræðri fágun sem skilur eftir sig síkvikar myndir og opið leiksvið. Ef áhugasviðið er byggingarlist, menningararfur, hlutskipti manna og fegurð himinsins stígur Sesar torfristumaður á sviðið í Brimhendu (1954) Gunnars Gunnarssonar sem er furðulegt sambland af prósaljóði, vísindaskáldskap og trúarriti. Heimsljóssómur berst úr Hælavík Í barndómi (1994) Jakobínu Sigurðardóttur, fallegt ljóð um lífið í torfbæ á bernskuárum höfundar, traust heimild en um leið eins konar súrrealismi því sá veruleiki sem dregin er upp lýsir leiksviði sem er nær með öllu horfið úr hugum fólks nema sem ímyndabrot í órökrænu samhengi. Á heimleiðinni verður svo að banka upp á hjá Henry David Thoreau þar sem hann stendur við sitt græna skrifpúlt í Walden (1854) og glímir við ráðgátuna um hvernig sambandi manna og annara lífvera sín á milli og við umhverfi sitt er háttað. Hvað er að vera maður á jörðinni? -spyr Thoreau og lítur upp frá púltinu og leggur frá sér pennann.

En að lokum Hannes, hvernig bækur myndir þú skrifa sjálfur?

Ætli það sé ekki einmitt spurningin sem flestir eru að reyna að svara og einmitt sú sem á það til að halda vöku fyrir fólki, og er þá stundum betra að bera niður í öðrum tungumálum en sínu eigin, kannski losna þá við krotið á hugartöflunni og bergmálið úr undirvitundinni og gera afrit af núinu: Confined, yet flying on a magic carpet, rubbing the golden kettle, time evaporating; – just now. . . 

Nýjar fréttir