7.3 C
Selfoss

Unnu sér inn keppnisrétt á heimsmeistaramóti í dansi

Vinsælast

Afrekshópur Dansakademíunnar tók þátt fyrir hönd skólans í undankeppni Dance World Cup, sem haldin var í Borgarleikhúsinu, þann 19.febrúar sl. Þar kepptu á þriðja hundrað nemendur frá listdansskólum víðsvegar af landinu um að ná sér í keppnisrétt fyrir heimsmeistaramótið í dansi sem haldið verður í Prag nú í sumar. Hópurinn samanstendur af 8 dansnemendum á aldrinum 11-16 ára og stóðu þær sig með prýði. Þær kepptu með 4 dansatriði sem öll unnu sér inn þátttökurétt með glæsibrag og komast því áfram með atriðin á heimsmeistaramótið Dance World Cup!

Það er greinilegt að hér á Suðurlandi leynast ungir og efnilegir dansarar og áhuginn fyrir listdansi í ört stækkandi samfélagi í Árborg leynir sér ekki. Nú æfa um 220 börn og ungmenni hjá Dansakademíunni, eftir einungis tvö og hálft ár í rekstri, og því mikilvægt að hlúa að sviðslistum hér í samfélaginu til að auka tækifæri þessara dansara í framtíðinni. Eigendur Dansakademíunnar, þær Gerður og Ástrós, telja stóran lið í þeirri vegferð vera að veita dansnemendum sínum sömu tækifæri og aðrir dansnemar fá annarsstaðar á landinu. Dansnám er frábært alhliða grunnnám í sviðslistum, þar sem hreyfing, leiklist og tónlist eru sameinuð í eitt.

Við fengum að spyrja þær Elísu Rut Sigurðardóttur og Áslaugu Rún Davíðsdóttur út í hvernig væri að taka þátt í svona stórri danskeppni og hvað stóð upp úr?

Þær voru sammála um að það hefði verið ólýsanleg upplifun að keppa í svona stórri keppni, á stóru sviði, með fullan sal af áhorfendum. Bæði var það skemmtilegt en stressandi á sama tíma. Um leið og þær voru komnar á sviðið, gleymdu þær sér í dansinum og nutu hvers augnabliks. Elísa talaði um að það sem hún hefði lært mest af í æfingaferlinu var að það væri allt í lagi að gera mistök, við lærum af þeim og vöxum bæði sem dansarar og einstaklingar. Áslaug talaði um að það hefði verið rosalega gaman að fá að æfa svona mikið með stelpunum og að hópurinn hefði styrkst og orðið betri vinkonur eftir þessa upplifun. Það sem stendur uppúr er góður árangur eftir þrotlausar æfingar en öll atriðin náðu þátttökurétti á heimsmeistarmótinu Dance World Cup sem haldið verður í Prag í sumar. Auk þess að vinna sér inn þátttökurétt hlutu tvö keppnisatriði stelpnanna bronsverðlaun og eitt atriðið gullverðlaun.

Stelpurnar eru á fullu í fjáröflun núna til að standa straum að kostnaði við þáttöku þeirra í Dance World Cup. Leita þær nú eftir Sunnlenskum fyrirtækjum sem vilja ólm styðja við þær í þessu stórkostlega ferðalagi. Áhugasömum er bent á að hafa samband við formann foreldrafélagsins fyrir frekari upplýsingar um styrkveitingar: Ragnheiður Kristinsdóttir, ragnheidurk@simnet.is.

Nýjar fréttir