2.6 C
Selfoss

Tvennir doktorsnemar frá HÍ hljóta verðlaun úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands

Vinsælast

Fimmtudaginn 15. Febrúar sl. var hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs haldinn í 22. sinn. Þetta var í fyrsta skipti sem fundurinn er á vegum Háskólafélags Suðurlands því á síðasta ári var ákveðið að félagið tæki yfir úthlutun á verðlaunum sjóðsins, sem hefur starfað óslitið frá árinu 2002. Fram að þeim tíma hafði Háskólafélagið verið í farsælu samstarfi við Fræðslunet Suðurlands um veitingu þessara verðlauna.

Að þessu sinni bárust sjö umsóknir til Vísinda- og rannsóknasjóðs Suðurlands sem fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi styrkja. Aðstandendur sjóðsins eru þakklát og stolt af því baklandi sem sjóðurinn á hjá fyrirtækjum, félögum og stofnunum á Suðurlandi fyrir þann myndarlega stuðning við námsmenn sunnlenskra verkefna sem þeirra stuðningur er. Verkefni umsækjenda eru námsverkefni á háskólastigi og tengjast Suðurlandi með ótvíræðum hætti auk ýmissa annarra skilyrða. Í stjórn og þar með dómnefnd sátu, Sveinn Aðalsteinsson formaður, Sigurður Sigursveinsson, fyrrum framkvæmdastjóri Háskólafélagsins og Lilja Jóhannesdóttir, forstöðukona Náttúrustofu Suðausturlands. Ingunn Jónsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri Háskólafélagsins er hins vegar í hlutveri ritara stjórnar.

Til að koma til álita sem verðlaunaverkefni þarf skýr tenging að vera við Suðurland og því fjölbreytta atvinnulífi og náttúru sem þar er að finna. Spurningin hvort verkefnið muni nýtast til frekari rannsókna og/eða til frekari atvinnusköpunar á Suðurlandi og hvort verkefnið/umsóknin segir áhugaverða sögu sem hefur skírskotun til fræðasamfélagsins, almennings og fyrirtækja á Suðurlandi.

Stjórnin ákvað að þessu sinni að verðlaunum skyldi skipt milli tveggja verkefna, sem tengjast Suðurlandi vel. Bæði verkefnin eru jafn vel að verðlaununum komin og titillinn og heiðurinn skiptist jafnt. Styrkþegar sjóðsins fyrir árið 2023 eru þær Guðbjörg Ósk Jónsdóttir og Méline Payet—Clerc, báðar doktorsnemar við Háskóla Íslands.

Verkefni Guðbjargar Óskar fjallar um fjölbreytileika bleikjustofna. Í ljósi breytinga á búsvæðum margra lífvera vegna loftlagsbreytinga og röskunar af mannavöldum, er mikilvægt að rannsaka fjölbreytileika stofna og hvernig þeir aðlagast ólíkum búsvæðum. Mótanleiki segir til um hvort og hvernig lífverur geta brugðist við breytingum á umhverfi. Mótanleiki svipfars, eru breytingar á eiginleikum vegna áhrifa umhverfis t.d. í þroskun einstaklings. Lang algengast er að mótanleiki svipfars sé rannsakaður á rannsóknarstofum því fá tækifæri til slíks gefast í náttúrunni. Í verkefninu verður bleikjan notuð til þess að skoða hvernig mismunandi stofnar hennar hafa aðlagað sig að umhverfinu sínu og hversu mótanlegar þær eru. Verkefnið snýst m.a. fjölbreytileika bleikjustofna á Suðurlandi og þau sérstöku tengsl sem eru milli bleikjanna í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni, en þau bjóða upp á einstakt tækifæri til að rannsaka mótanleika svipfars í náttúrunni. Dómnefnd mat verkefnið sem mjög áhugavert út frá fræðilegum forsendum en varpar auk þess ljósi á áhrif framkvæmda og loftslagsbreytinga á gjöfula en viðkvæma náttúru Suðurlands og hefur því mikið hagnýtt gildi.

Verkefni Méline Payet–Clerc fjallar um basíska sprengigosið í Veiðivötnum 1477, sem var sprungugos í Veiðivatna-Bárðarbungu eldstöðvakerfinu. Það er stærsta og öflugasta sprengigos sinnar tegundar á Íslandi á sögulegum tíma. Afleiðingar eldgossins voru þær að um helmingur Íslands var þakinn gjósku. Þykkt gjóskunnar á landi eftir þykktarás var minnst 2 cm. Gjóska frá þessu eldgosi finnst einnig á Írlandi og í Svíþjóð, en það bendir til þess að öskuríkur gosmökkurinn hafi náð vel yfir 30 km hæð í lofthjúp jarðar. Markmið verkefnisins eru annars vegar að skilja sundrunarferli kvikunnar sem leiddu til og héldu við sprengikrafti gossins og hins vegar að hanna nýtt reiknilíkan fyrir gosmekki í basískum sprungugosum á Íslandi. Niðurstöður rannsóknarinnar munu leiða til betri skilnings á öflugum og stórum basískum sprengigosum suðurhálendisins og bæta mat á þeim hættum er stafa af slíkum atburðum. Að mati dómnefndar hefur verkefnið bæði fræðilega og hagnýta skírskotun á tímum mikillar eldfjallavirkni hérlendis og ætti að bæta við mikilvægum verkfærum í spákistu okkar framúrskarandi jarðvísindafólks.

Það skal tekið fram að Méline var stödd erlendis og mun því veita viðurkenningunni viðtöku síðar.

Stjórn Vísinda- og rannsóknarsjóðs og Háskólafélag Suðurlands óska nýjum styrkþegum innilega til hamingju og góðu gengi í sinni vinnu.

Háskólafélag Suðurlands

Nýjar fréttir