8.4 C
Selfoss

„Hlusta á hjartað, það er alveg númer eitt, tvö og þrjú“

Vinsælast

Mæðgurnar Bryndís Brynjólfsdóttir, gjarnan kölluð Dísa og Kristín Hafsteinsdóttir hafa í sameiningu rekið tískuverslunina Lindina á Selfossi í 50 ár í dag, 15. febrúar. Fjögurra daga afmælishátíð hefst því í dag, þar sem afslættir, veitingar og gleði koma til með að einkenna fallegu verslunina þeirra að Eyravegi 29 á Selfossi fram á sunnudag. Í tilefni dagsins tókum við þessar glæsilegu mæðgur á tal og fengum að heyra hvernig reksturinn hófst og hvernig hann hefur þróast á þessum 50 árum. 

Dísa segir að það hafi verið ákvörðun foreldra hennar um að selja Tryggvaskála, sem þau höfðu átt og rekið um árabil og hún sjálf unnið þar frá barnsaldri, sem hafi ýtt henni af stað. „Þau áttu að afhenda Tryggvaskála fyrsta apríl 1974 og ég fór að huga að því hvað ég vildi gera. Ég hafði alltaf haft ánægju af ferðalögum. Eitt sinn hitti ég hjón sem ráku verslun á Siglufirði og þau sögðu mér frá ferðalögum sínum út um allt til að kaupa inn. Þar með voru þau búin að slá niður smá eldingu í minn huga sem endaði með því að ég ákvað að setja upp verslun. Ég var svo heppin að þekkja Hildiþór Loftsson sem leigði mér verslunarhúsnæði. Þegar það var frágengið skrapp ég til Lundúna með eitt götukort í farteskinu. Vinur minn hafði merkt inn á kortið og sagt mér hvaða svæði ég skyldi kanna sem ég gerði og hóf svo rekstur þann 15. febrúar 1974.“

En rekstrarumhverfið hefur töluvert breyst frá því fyrir 50 árum síðan, ekki satt? „Við skulum líta til baka. Árið 1974 bjuggu hér á Selfossi 2800 manns, þannig að það voru ekki margir. En það var líka lítið um sérverslanir og þetta var ögrandi, en ég var alveg tilbúin að leggja í þetta ferðalag, var tilbúin að leggja mikla vinnu á mig. Maður brann fyrir því að koma undir sig fótunum og hafa eitthvað að gera, það var eiginlega ekkert öðruvísi. Ég hafði bara trú á því að Selfoss væri stækkandi bæjarfélag og þannig bara keyrði ég á þetta. Þetta var smátt í sniðum, margar vörutegundir. Barnaföt, herraföt, dömuföt, snyrtivörur, skartgripir en bara pínulítið af hverju, því það voru ekki margir viðskiptavinir,“ segir Dísa.

2010_45_TJ_02122

„Heldur betur smart að fá vörur úr Karnabæ á Selfossi“

Aðspurð hvort hún hafi boðið upp á vörur sem voru ekki fáanlegar í Kaupfélaginu segir Dísa:

„Það fór náttúrulega svolítið eftir því hverjir voru spurðir. Þetta var mikil nýjung og ég var svo heppin að frændi minn, Guðlaugur Bergmann, rak Karnabæ og hann fór fljótlega að selja mér vörur. Þannig komst ég inn í hans umhverfi og það þótti nú heldur betur smart að geta fengið vörur úr Kranabæ á Selfossi. Það gekk svo vel fyrsta mánuðinn að ég varð að fara aftur út eftir einn mánuð því ég var hér um bil búin að selja upp því þetta þótti glæsileg nýjung hérna.“

Svo viðtökurnar hafa greinilega verið góðar? „Já, ég get ekki neitað því. Það gaf mér mjög mikið hvað fólk tók þessu vel. Ég var mjög varkár, maður átti engan pening þannig ég var mjög varkár í innkaupum fyrst svo lagerinn var ekki stór en hann seldist hér um bil upp,“ segir Dísa.

Verðlagseftirlit á þessum árum var mjög strangt. Til Dísu kom maður úr Reykjavík öðru hvoru sem bað um að fá að sjá nótur fyrir hinum og þessum vörum, áður en hann reiknaði út hvort ríkisálagningin væri rétt. „Undir þetta varð maður alltaf að vera undirbúinn því hann gat birst hvenær sem var og ef maður stóð sig ekki með réttan útreikning þá átti maður von á sekt, en sem betur fer lenti ég aldrei í því.“

Svo frjáls verslun var ekki til? „Hún var að vísu til en hún var undir þeirri smásjá að enginn gat leyft sér að leggja neitt aukalega á. Þetta var ríkisálagningin. Á þessum árum þurfti að passa allt saman og auðvitað var það ekki markmiðið að græða of mikið, maður var bara að hugsa um að hafa vinnu. Það náði ekki lengra.“ 

„Þessi hugsun hefur svo sem alltaf átt við hjá okkur, að vera sanngjarn og hafa verðin samkvæmt álagningu þannig að fólk komi og þyki gott að versla hjá okkur, það hefur verið svona rauði þráðurinn í gegnum allt,“ bætir Kristín við.

Ódýrara að vera erlendis í fimm daga en tvo

Aðspurð um muninn á rekstrarumhverfi í dag og fyrir fimmtíu árum segir Dísa hann mjög mikinn. „Fyrir það fyrsta þá var náttúrulega erfitt með gjaldeyri, það voru engin krítarkort og maður varð að senda allar nótur heim í bankann, maður gat ekkert keypt úti og maður fékk skammt af gjaldeyri með sér. Flugferðirnar voru mjög dýrar og yfirleitt varð maður að dvelja erlendis í fimm daga, en með því að gista erlendis aðfaranótt laugardags varð flugfargjaldið sanngjarnt. En fyrir bragðið dvaldi ég yfirleitt alltaf fimm daga í Lundúnum í hverri ferð sem var ódýrara en tveggja daga flug og þann tíma nýtti ég til að fara á listasöfn, leikhús, söngleiki, nefndu það. Þetta er talsvert breytt í dag. Maður getur skroppið að morgni og jafnvel komið heim að kvöldi. Þessi aðstaða er náttúrulega gjörólík.“ 

Danski fatnaðurinn afskaplega vinsæll

En hvernig eru þessir verslunarhættir í dag? „Í dag erum við í viðskiptum við mörg fyrirtæki alls staðar að úr heiminum. Okkar stærstu brigjar koma frá Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Englandi, Hollandi og við erum með fyrirtæki frá Grikklandi. Meirihlutinn kemur frá Danmörku, en danski fatnaðurinn er afskaplega vinsæll. Svo erum við með svona „krydd“ sem við tökum inn, hönnunarfyrirtæki víða að, og höfum verið að sækja í okkur veðrið við að vera með fallegar vörur sem eru sérstakar, ásamt því að vera með fjöldaframleitt. Búðin er ennþá með þessa fyrirmynd, að vera fyrir breiðan aldurshóp, ungar sem eldri konur. Hér koma stundum þrjár kynslóðir, og okkur þykir voða skemmtilegt að allar geti fengið eitthvað fyrir sig,“ segir Kristín.

Kristín á 45 ára afmæli Lindarinnar. Mynd: Aðsend.

Sérsmíðuð trékista undir 10 jakka

Dísa minnist atviks sem henni þykir alltaf jafn sérstakt og skemmtilegt frá fyrstu ferð hennar til Lundúna. „Í þeirri ferð keypti ég um tíu jakka af manni sem var afskaplega áhugasamur um hvað ég væri að gera. Þegar hann frétti svo að þetta væri mín fyrsta ferð, bauð hann mér í te og vildi ólmur kenna mér svolítið á rekstur. Honum fannst ég koma svo langt að, að þegar hann var að láta pakka jökkunum, lét hann smíða úr mótatimbri stóran trékassa fyrir þessa tíu jakka því þeir voru að fara svo langt. Þegar við maðurinn minn fórum svo að sækja vörurnar í tollinn furðaði hann sig á því hvað í ósköpunum ég hefði verið að kaupa þarna úti sem kæmi heim í stórri trékistu. Þessi kassi hefur nýst vel, við komum honum fyrir uppi í sumarbústað þar sem hann hefur þjónað okkur í mörg ár,“ segir Dísa og hlær.

Til þjónustu reiðubúin

Kristínu er minnisstætt atvik sem átti sér stað fyrir um tíu árum síðan. „Vá, ég fékk alveg hjartslátt. Það kemur kona inn og tilkynnir mér að systir hennar sé að fara að gifta sig eftir tvo tíma, að hún eigi að leiða hana inn kirkjugólfið og þurfi að vera glæsileg. Ég fer að finna út úr þessu og sem betur fer átti ég til einn kjól frá einu af „krydd“ fyrirtækjunum sem smellpassaði á hana. Kjóllinn var mjög sérstakur að því leytinu til að hann var handheklaður og algjör glæsikjóll, svo að hún var blessunarlega glæsileg við það að að leiða systur sína inn kirkjugólfið. En það er einmitt þetta, ábyrgð, að vera til staðar í gleði og sorg, alltaf með rétta lagerinn, að geta þjónað. Ég tek því hlutverki mjög alvarlega að vera til þjónustu reiðubúin fyrir íbúa og aðra sem vilja eiga viðskipti við okkur.“

Kristín segir stærstu hindranirnar í upphafi verið gengisfellingar. Síðan fjármálahrunið og Covid þegar öllu var lokað. „Þetta eru svona punktar sem maður mun aldrei gleyma því að það reyndi á hæfni manns að sigla fyrirtæki í gegnum þessi tímabil en það tókst og nú erum við að fara að halda upp á fimmtíu ára afmæli. Dásamlegt,“ segir Kristín og brosir sínu breiðasta.

Kristín, Anne Clara, fyrrum starfsmaður Lindarinnar, og Bryndís á sýningu í Kaupmannahöfn árið 2020. Mynd: Aðsend.

Samstíga mæðgur

Samstarf mæðgnanna hefur að sögn gengið afskaplega vel í gegnum árin. Kristín var 11 ára þegar mamma hennar opnaði Lindina árið 1974 og þótti það virkilega spennandi tímabil. „Ég man að fyrsta daginn, þegar fyrirtækið var að opna klukkan tíu, var ég sofandi í Tryggvaskála hjá ömmu og afa því mamma og pabbi höfðu verið alla nóttina að vinna og afi vakti mig ekki á réttum tíma. Hann hafði þá komið og ætlað að vekja rósina sína sem svaf þá svo fallega að hann tímdi því ekki. Ég varð, hugsa ég, um klukkutíma of sein. Það var alveg rosalega mikið. Ég held ég hafi aldrei skammað afa minn nema í þetta eina skipti, því ég hafði ætlað að vera mætt um leið og mamma opnaði,“ segir Kristín og hlær.

Dísa tekur undir að samstarfið hafi alltaf gengið vel og segir þær samstíga og þrátt fyrir að þær hafi oft mismunandi skoðanir komist þær alltaf að lendingu, enda með sama markmið. 

„Ég held það hafi gengið ótrúlega vel miðað við hvað mikið er í húfi, það var náttúrulega mikil gæfa fyrir mig þegar Kristín vildi taka við rekstri verslunarinnar 1989, þegar mér var boðið starf útibússtjóra hjá Sjóvá-Almennum tryggingum og ég var ekkert á þeim buxunum að fara að hætta í minni verslun en mér fannst þetta tilboð mjög spennandi, að verða útibússtjóri fyrir stórt tryggingafélag hér í ört vaxandi bæjarfélagi. Kristín hafði þá nýlokið prófi frá Háskóla Íslands sem viðskiptafræðingur og hún var einnig á tímamótum þannig að þetta small allt. Hún ákvað að þiggja þetta, að fara að vinna og taka við versluninni og ég fór í Sjóvá. Frá þeim tíma hef ég náttúrlega verið aftursætisbílstjóri á þessu ferðalagi og þeir geta nú verið ansi leiðinlegir og nöldrandi en hún hefur sýnt mér þá virðingu sem dóttir að þetta hefur aldrei leitt til neinna vandræða, frekar ánægjulegt og mjög ánægjulegt að ferðast með henni í innkaupaferðir og kynnast fólki og við höfum notið þess mjög vel.“

Hjartað vísar veginn

Aðspurð um hvaða ráð Kristín myndi gefa fólki sem er að hefja rekstur stendur ekki á svörum:

„Fylgdu hjarta þínu, hjartað vísar veginn. Ég held þetta sé alltaf þannig að maður þurfi að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera því það er krefjandi að vera í rekstri, þú þarft að leggja mikið á þig, langir vinnudagar oft og ef þú brennur ekki fyrir því, þá ganga hlutirnir ekki upp. Svo það skiptir máli, maður nær ekki árangri nema að hafa gaman að hlutunum. Þannig að ég myndi segja að hlusta á hjartað, það er alveg númer eitt, tvö og þrjú. Það kemur líka að því þegar maður þarf að taka erfiðar ákvarðanir, maður fer inn á við og hlustar á hjartað, það hefur alltaf vísað mér veginn.“

„Við stöndum á tímamótum, erum að halda upp á fimmtíu ára afmæli sem eru augljós forréttindi. Framtíðarsýnin er að sjálfsögðu að standa og þjóna viðskiptavinunum eins og við höfum gert hingað til. Við höfum verið að auka mjög mikið við merki og við erum alltaf að endurskoða, taka út og setja ný inn, eftir því sem við finnum það besta á markaðnum. Ég myndi segja að við hefðum alltaf lagt áherslu á að vera með sanngjarnt verð og dásamlegu kúnnarnir okkar koma aftur. Þeir gera það ekki nema maður sé sanngjarn,“ bætir Kristín við.

Kristín, Bryndís og Bjarki Már, sonur Kristínar, að taka á móti verðlaunum fyrir best jólaskreytta fyrirtækið í Árborg árið 2017. Kjartan Björnsson bæjarfulltrúi afhendi verðlaunin.

Væru ekki hér nema fyrir dásamlegt starfsfólk og viðskiptavini

Kristín og Dísa segjast hafa verið einstaklega lánsamar með starfsfólk í gegnum árin. „Við hefðum aldrei getað þetta nema hafa okkar yndislega starfsfólk sem við höfum verið blessaðar í bak og fyrir með. Maður verður bara meyr við að hugsa um hvað þetta hefur verið gott fólk sem hefur dregist að okkur, bæði starfsfólkið og okkar yndislegu viðskiptavinir, án þeirra værum við ekki hér,“ segir Kristín.

„Við höfum í gegnum tíðina gert okkar til að taka þátt í uppbyggingu á Selfossi, tekið þátt ef einhverjir eru að safna fé, gefið vinninga og annað slíkt til að styrkja samfélagið. Í hverju bæjarfélagi verður fólk að gera sér grein fyrir því það eru atvinnufyrirtæki sem hjálpa ungmennafélögunum og margs konar starfsemi. Á þessum árum hefur íbúafjöldinn á svæðinu farið úr 2800 upp í 10.000 manns og við höfum reynt að þróa okkur með þessari stækkun. En það eru ekki bara þessi tíu þúsund sem eru hér, þetta eru öll nágrannabæjarfélögin, sumarbústaðabyggðin hér í Grímsnesinu og Tungunum og fleiri til. Þetta fólk sækir allt til okkar og með nýja miðbænum þá fjölgar enn ferðamönnum sem koma hingað og við sem rekum fyrirtæki verðum öll að standa saman og mynda þetta fallega og góða bæjarfélag og laða til okkar viðskiptavini, sama í hvaða fyrirtækjarekstri við stöndum, því fyrirtækjarekstur og samfélagið, þetta er bara eitt. Það er ekkert öðruvísi,“ bætir Dísa við.

„Við lifum öll hvort af öðru og þurfum öll á hvort öðru að halda. Hér eru að myndast sterk fyrirtæki við aðalgötuna. Við erum bara ein gata í gegnum þorpið og um hana fer stríður straumur af heima-, sem og ferðafólki. Þetta hefur hjálpað fyrirtækjunum hér mjög að stækka og blómstra á svæðinu og með þetta ört vaxandi byggðafélag allt um kring sé ég ekkert nema bjarta framtíð hér,“ segir Kristín að lokum.

HGL

Nýjar fréttir