0.6 C
Selfoss

Bryndís Eva íþróttamaður ársins hjá Þjótanda

Vinsælast

Bryndís Eva Óskarsdóttir í Dalbæ hlaut nafnbótina Íþróttamaður ársins 2023 á verðlaunaafhendingu sem fór fram samhliða aðalfundi Ungmennafélagsins Þjótanda í Flóahreppi. Samtímis var Kolbrún Júlíusdóttir í Kolsholti valin félagi ársins 2023.

Í umsögn stjórnar um val á íþróttamanni ársins segir að Bryndís sé mikill íþróttamaður sem leggi sig alltaf 100% fram í keppni og sé um leið hvetjandi við aðra keppendur og ýti alltaf undir jákvæðan anda bæði á æfingum og mótum. „Bryndís stundaði frjálsar íþróttir af kappi sem unglingur og var ein að aðalkeppendum í liði HSK á árunum eftir 2000. Þá náði hún bestum árangri í grindahlaupum og stökkgreinum. Eftir að nýja frjálsíþróttaaðstaðan komst á laggirnar á Selfossi hefur Bryndís tekið skóna fram á ný og tekur nú þátt í æfingum með „fullorðinsfrjálsum“ á Selfossi. Í febrúar í fyrra keppti Bryndís á Norðurlandameistaramóti öldunga í Laugardalshöll og náði þar frábærum árangri í flokki 35-39 ára. Hún varð Norðurlandameistari í þrístökki, langstökki, hástökki og 60 m grindahlaupi, og náði öðru sæti í kúluvarpi og 60 m hlaupi. Samkvæmt afrekaskrá Frjálsíþróttasambandsins á Bryndís Eva tvö Íslandsmet í flokki 35-39 ára, í 60 m grindahlaupi, 11,17 sek og í hástökki án atrennu, 1,15 metra.“

„Kolbrún hefur tekið þátt í ungmennafélagsstarfi frá því hún flutti í Flóann fyrir rúmum 40 árum. Eftir að Umf. Þjótandi var stofnað hefur engin breyting orðið þar á og er Kolbrún alltaf boðin og búin að mæta og hjálpa til við hvaðeina sem þörf er á. Undanfarin ár hefur Kolbrún verið lykilstarfsmaður í Kökuskreytingakeppni Þjótanda á Fjöri í Flóa. Þá mætir hún alltaf í skötuveisluna á Þorláksmessu til að aðstoða og á víðavangshlaupið á sumardaginn fyrsta svo eitthvað sé nefnt. Á Unglingalandsmótinu á Selfossi 2022 stóð Kolbrún vaktina í eldhúsinu í fjölbrautaskólanum og útbjó veitingar fyrir starfsmenn mótsins. Kolbrún er einnig fulltrúi Þjótanda í Starfsíþróttanefnd HSK,“ segir stjórn um val á Félaga ársins. Telur stjórn hana vel að titlinum komna og þakka Kolbrúnu fyrir frábært framlag til félagsins.

Nýjar fréttir