1.1 C
Selfoss

Set ehf. í söluferli

Vinsælast

Set ehf. á Selfossi, sem sérhæfir sig í fjölbreyttri starfsemi á lagnasviði, hefur verið sett í söluferli. Set ehf. á sér tæplega hálfrar aldar sögu á Selfossi. Einar Elíasson, stofnandi Sets, stofnaði Steypuiðjuna árið 1968 sem framleiddi steinsteypt holræsarör fram á níunda áratuginn. Hann stofnaði Set ehf. ásamt fleirum árið 1978 og hóf framleiðslu á einangruðum stálpípum fyrir hitaveitur sem einangruð voru í plaströrum sem Steypuiðjan framleiddi í upphafi. Umfangsmikil og fjölbreytt starfsemi á lagnasviði er nú megin starfsemi Sets ehf. en fyrirtækið hefur um langt skeið verið eitt um framleiðslu á einangruðum rörum og plaströrum hér á landi. Öll framleiðsla fer fram í verksmiðjum Sets á Selfossi og í Þýskalandi en félagið starfrækir einnig vöruhús í Reykjavík og söluskrifstofu í Danmörku. Alls starfa um 110 manns hjá félaginu. Velta samstæðunnar var um 7.500 milljónir á síðasta ári.

„Saga Sets ehf. er samofin sögu Selfoss enda hefur félagið ávallt lagt mikið til nærsamfélagsins og mun gera það áfram um ókomna tíð. Fyrirtækið er sagan, starfsfólkið og sú mikla hæfni sem það býr yfir við að leysa fjölbreytt viðfangsefni og það á ekki eftir að breytast,“ segir Bergsteinn Einarsson, forstjóri Sets ehf. „Þetta skref í framþróun félagsins er liður í áframhaldandi uppbyggingu og til að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem blasa við. Við höfum aðallega starfað á fjórum vörusviðum fyrir hita-, vatns- og fráveitur auk raf- og ljósleiðaralagna en framleiðsla og þjónusta við uppbyggingu landeldisstöðva hefur einnig bæst við fjölbreytt viðfangsefni okkar.“

Starfsemi Sets ehf. hefur öðru fremur einkennst af mjög virku samkeppnisumhverfi. Þær aðstæður hafa kallað á árvekni og skjót viðbrögð þar sem áhersla hefur verið lögð á hátt tæknistig, framleiðni og gæði. Mikil þekking og reynsla hefur skapast á sviði framleiðslutækni hjá fyrirtækinu og er Set orðið alþjóðlegt fyrirtæki, þekkt á fjarvarmasviðinu og þátttakandi í orkuskiptum í Evrópu. Viðskiptavinir Sets ehf. eru aðallega veitustofnanir, sveitarfélög, stærstu orku- og fjarskiptafyrirtæki landsins, verktakar og endursölu- og þjónustuaðilar á byggingasviði.

Nýjar fréttir