5.6 C
Selfoss

Grillaðir piparbelgir, Snittubrauð með reyktum laxi og stökk vöffluhjörtu með hindberjum

Vinsælast

Hrafnhildur Magnúsdóttir er sunnlenski matgæðingurinn að þessu sinni.

Vá, takk Birna – mikill heiður.

Þó það lægi kannski beinast við að tína til þunga vetrarrétti í febrúardrunganum langaði mig frekar að grafa upp eitthvað bjartara og grænna, aðeins til að minna á vor. Hugsa yfirleitt stöðugt um sítrónur í febrúar. Hér eru þrír einfaldir smá/smakkréttir, einn sætur og tveir ekki, sem er ljúftdunda við og gamanbera fram – og auðvitað best að borða með fleirum. Er ekki nákvæm uppskriftakona svo þetta er allt sett fram með slumpfyrirvara og allra-mikilvægast að hver geri eftir eigin smekk og höfði og hafi gaman á meðan.

Grillaðir piparbelgir

200 gr grænir piparbelgir
Sjerrí edik
Brætt smjör
Súrdeigsbrauð, mulið niður (fínt að nota afgangsbrauðið í þetta)
Furuhnetur
Rifinn sítrónubörkur
Fetakubbur

Brauðmolum og furuhnetum velt upp úr smjörinu og síðan bakað í ofni nokkrar mínútur. Börkur af sítrónu rifinn yfir. Belgjunum velt heilum upp úr ólívuolíu, þeir kryddaðir með salti og pipar og grillaðir vel og vandlega þangað til þeir eru orðnir vel svertir. Fyrir viðkvæmari má taka fræin úr. Best er að grilla þá á grilli en það má líka grilla í ofni eða steikja á pönnu. Smá sérríedik sett yfir í lokin. Brauð– og hnetublöndunni er síðan stráð yfir piparinn og fetakubburinn mulinn yfir eftir smekk.

Snittubrauð með reyktum laxi

Súrdeigs-snittubrauð (alltaf skothelt hjá GK til dæmis) Líka gott að nota laufabrauð, ef það er til afgangur eftir jólin (sjaldgæft).

Reyktur lax
Skallott laukur
Kapers
Sítróna

Ofaná:
Þeyttur rjómi
Sýrður rjómi
Rifin piparrót
Graslaukur

Brauðið skorið í þunnar sneiðar, penslað með ólívuolíu og grillað í ofni í nokkrar mínútur. Laxinn skorinn í litla tenginga, laukurinn brytjaður smátt og blandað saman við ásamt kapers og rifnum berki af sítrónunni. Þeyttum og sýrðum rjóma blandað saman í ca. helmingshlutföllum og rifinni piparrót hrært saman við ásamt smá salti og pipar. Þessu er síðan raðað saman, lítill laxhóll með rjómaskafli ofaná og graslaukur klipptur yfir. Borið fram með sítrónubátum.

Stökk vöffluhjörtu með hindberjum

100 gr smjör
3 dl rjómi
1 ½ dl vatn
3 ½ dl hveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk vanillusykur + smá hrásykur
Frosin hindber
Safi úr sítrónu
Flórsykur

Smjörið btt og láta kólna. Rjóma, vatni og þurrefnum blandað saman og smjörinu síðan hrært saman við.

Bakað í vöfflujárni þar til vöfflurnar verða vel brúnaðar og stökkar. Þegar vöfflurnar eru tilbúnar eru þær teknar í sundur og kældar á ofnrist. Hindberin eru svo soðin snöggt í potti með smá sítrónusafa (má setja hunang eða vanillusykur fyrir þau sem vilja hafa berin sætari). Flórsykur sigtaður yfir og hindberjunum síðan dreift yfir hjörtun. Gott að bera fram með vanilluís og/eða þeyttum rjóma.

Hún Anna Ingadóttir, frænka mín, kann alla eldhúsgaldrana og er vonandi til í að deila smá af þeim með okkur næst.

Nýjar fréttir