0.4 C
Selfoss

Les að öllu jöfnu mikið eftir þýska höfunda

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum. Eftir stúdentspróf frá MH flutti hún til Noregs, bjó og vann í Osló í tvö ár. Í framhaldinu settist hún að í Þýskalandi, og bjó þar bæði í austur og vesturhlutanum í um tuttugu ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín. Kristin var fréttaritari Ríkisútvarpsins í Berlín frá 1990 til 2000 en tók þá við PR- og markaðsdeild Icelandair í Frankfurt. Árið 2004 lá leiðin aftur til Íslands. Hún hefur stjórnað Eldheimasafninu í Vestmannaeyjum frá opnun þess árið 2014.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég las eina bók um jólin, Ból sem er nýjasta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur, óskaplega fín og vönduð saga, ekki að ég hafi átt von á einhverju öðru frá Steinunni. Hún er ein af mínum uppáhalds. Skáldsaga hennar Tímaþjófurinn er á mínum topp 10 lista yfir uppáhalds bækur ásamt Veröld sem var eftir Stefan Zweig og Mephisto eftir Klaus Mann. Svo tók ég mér tvær bækur í fríið þar sem ég er í Praia á Grænhöfðaeyjum ásamt sambýlismanni mínum. Ég á eftir að lesa nýjustu bók Auði Övu Ólafsdóttur DJ Bambi en ég er búin með hina bókina VAR ER OG VERÐUR BIRNA sem er æfisaga Birnu Þórðardóttur eftir Ingibjörgu Hjartardóttur. Birna er meira en einstök og ef það er einhver sem staðið hefur með sjálfri sér og sinni sannfæringu þá er það Birna Þórðardóttir og mikið er sagan hennar vel skrifuð af Ingibjörgu. Bókin sjálf er líka einstaklega glæsileg. Myndskreytt með fallegum og vönduðum myndum sem eru teknar og valdar af Rannveigu Einarsdóttur.    

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þær verða að hafa einhvern boðskap og tengingar við raunveruleikann. Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á glæpasögum og þaðan af síður á vísindaskáldsögum. Hef reyndar lesið allflestar af skáldsögum Yrsu Sigurðardóttur. Þær eru svo skemmtilega uppbyggðar, nánast eins og spennumyndahandrit. Ég er líka svo mjög ánægð með að hún er með Vestmannaeyja tengingar í þremur af sínum verkum.

Ertu alin upp við bóklestur?

Í æsku voru lesnar fyrir okkur klassískar smábarnabækur en man ekki alveg hverjar voru þær fyrstu.  Ég man aftur vel eftir Dísu ljósálfi og dverginum Rauðgrana, einhverra hluta vegna,  já og svo þótti líka í lagi að lesa Bláskjá í mínu ungdæmi. Ég fór snemma að lesa sjálf og þá voru það Fimm bækurnar og Ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton til að byrja með. Uppáhalds bækurnar mínar eru líklega þær sem ég valdi fyrir syni mína. Palli var einn í heiminum var mikið lesin og svo Janoch bækurnar sem líka eru svona bækur með boðskap um hvernig menn, börn og dýr geti unað glöð við sitt.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég hef þær lestrarvenjur að vera alltaf með svona eina til þrjár bækur á náttborðinu og les flest kvöld áður en ég sofna. Ég tek eiginlega alltaf bækur með mér í ferðalög bæði stutt og löng. Ég er svo nýorðin eigandi að Kindl sem á vonandi eftir að spara pláss og bókaburð í framtíðinni.   

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Ég er með magister gráðu í þýskum bókmenntum og les því að öllu jöfnu mikið eftir þýska höfunda og fylgist vel með því sem er að gerast í þýska bókmenntaheiminum. Ég tel alltaf fyrst upp Klaus Mann þegar ég er spurð um uppáhaldshöfund. Hann telst ekki til bestu rithöfunda heimsbókmenntanna, en hann hafði mikil áhrif á mig og ég skrifaði lokaritgerðina mína um hann. Bók hans MEPHISTO sem fjallar um það hvernig listamaður í þriðja ríki  Nazista selur sál sína fyrir frægð og frama er stórkostleg. Ég veit ekki til þess að hún hafi verði þýdd yfir á íslensku. En kvikmynd eftir bókinni fékk Óskarsverðlaun á sínum tíma.

Ég held mikið upp á svissneskan höfund sem heitir Martin Suter. Hann hefur einstakt lag á að skapa og fletta ofan af persónum sem eiga sér sögu og fortíð sem þola ekki dagsljósið.

Bernard Schlink er áhugaverður en hans þekktasta bók er Lesarinn. Ég les allt sem kemur frá öðrum mögnuðum samtímahöfundi að nafni Ferdinand von Schirach. Bækur hans fjalla mikið um mannlegan breyskleika, lög, glæpi og refsingar.    

En uppáhaldstextar?

Það sem skiptir mig öllu er að textar séu góðir og áhugverðir því þá skiptir innihaldið oft minna máli. Ég er mikill aðdáandi japanska ritöfundarins Haruki Murakami. Bækur hans eru margar hverjar 6 til 800 blaðsíður. Hann heldur manni hinsvegar alveg við efnið þó ekkert gerist inn á milli annað en að söguhetjan fái sér kaffi og fari í sokkana. Ég les líka þó nokkuð um sögu og pólitík, minn uppáhalds á þessu sviði heitir Stefan Aust, blaðamaður og ritstjóri Der Spiegel til margra ára. Ég er yfirhöfuð mjög hrifin af þýskri fréttamennsku. Þýskir fréttamenn á stóru þýsku miðlunum eru yfirhöfuð klárir, reyndir og vandvirkir. 

Hefur bóklestur rænt þig svefni?

Það er reyndar ekki oft sem bækur ræna mig svefni.  Ef einhverjum höfundi hefur tekist það, þá er það helst áðurnefndur Martin Suter og Yrsa Sigurðardóttir.

En að lokum Kristín, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Það vill nú svo skemmtilega til að ég hef skrifað og gefið út eina bók Ekki gleyma mér saga sem byggð er á minni eigin reynslu af lífinu í gamla austur-þýska alþýðulýðveldinu.

Ég er aðeins farin að huga að annarri bók sem einnig mun verða með einhver tengsl við raunveruleikann án þess að ég vilji fara nánar út í innihaldið.

Nýjar fréttir