8.4 C
Selfoss

Umhverfisstofnun stöðvar dýpkunarframkvæmdir í Þorlákshöfn

Vinsælast

Dýpkunarframkvæmdir við landfyllingu í Þorlákshafnarhöfn hefur verið stöðvuð af Umhverfisstofnun. Sömuleiðis mælir Skipulagsstofnun gegn landfyllingunni og segir deiliskipulagið m.a. í ósamræmi við aðalskipulag. Þessar fréttir hafa gífurlega mikla þýðingu fyrir félaga í Brimbrettafélagi Íslands, sem hafa barist hart fyrir því að fá áformum um fyrirhugaða landfyllingu í Þorlákshafnarhöfn breytt.

Ljósmynd: Berglind Jóhannsdóttir.

Umhverfisstofnun, ásamt Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, hefur stöðvað dýpkunarframkvæmdir í Þorlákshafnarhöfn, þar sem leyfi hefur ekki fengist fyrir haugsetningu, efnistöku og förgun á dýpkunarefnum, segir í fundargerð stofnunarinnar. Sagt er að sveitarfélagið hafi áætlað að nýta dýpkunarefnið í landfyllinguna og að framkvæmdin sé því ólögleg og að Suðurverk, sem hefur séð um framkvæmdina, hafi ekki haft starfsleyfi frá 30. desember sl.

Í ósamræmi við aðalskipulag

Í fundargerð Skipulagsstofnunar segir að stofnunin mæli gegn landfyllingunni og samþykki ekki að hún falli undir almenna skilmála aðalskipulags um óverulegar framkvæmdir. Að auki kemur fram að stofnunin mæli gegn því að skipulagið verði auglýst og tiltekur tvær ástæður því til stuðnings, þ.e.a.s. að deiliskipulagið sé í ósamræmi við aðalskipulag og að þörf sé á að gera grein fyrir umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í deiliskipulagi. Þá segir stofnunin að framkvæmdin sé matsskyld, sem þýðir að sveitarfélagið þurfi, áður en framkvæmdir hefjast, að tilkynna hana til Skipulagsstofnunar sem tekur í framhaldi ákvörðun um hvort framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum.

Aftur á byrjunarreit

Stjórn BFFÍ metur það svo að landfyllingin þurfi vissulega að fara í umhverfismat. Þá segja þau þetta gríðarlega jákvæða þróun fyrir félagið, enda lítur út fyrir að, kjósi sveitarfélagið Ölfus að halda framkvæmdum við landfyllinguna áfram, komi þau til með að þurfa að byrja aftur á byrjunarreit.

Nýjar fréttir