Laugardaginn 4. nóvember sl. héldu kvenfélögin þrjú í Flóahreppi basar í félagsheimilinu Þingborg til styrktar Sjóðnum góða. Kvenfélögin þrjú eru kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps, Hraungerðishrepps og Villingaholtshrepps. Eftir sameiningu hreppanna þá hafa kvenfélögin unnið að ýmsum verkefnum saman. Eitt af þeim verkefnum er basar sem hefur verið haldinn annað hvert ár frá árinu 2014 (fyrir utan basarinn 2020 sem frestaðist til 2021 vegna Covids). Valinn er málstaður til að styrkja hverju sinni og í ár ákváðum við að styrkja við Sjóðinn góða.
Að baki basars liggur heilmikil vinna hjá kvenfélagskonum. Hvert félag tilnefnir konur í nefnd sem heldur utanum skipulagið. Kvenfélögin undirbúa sig með ýmsum hætti, það eru föndurkvöld, vinnustundir og sameiginleg baksturskvöld, auk þess sem hver kvenfélagskona gerir ýmislegt heimafyrir til að koma með á basar. Á basar voru ýmsar handgerðar vörur, bæði prjónað, heklað og saumað. Einnig bakkelsi eins og ávaxtamauk, ristaðar möndlur, kakógerðarpúðar, sultur og fleira. Kökubasar er einn vinsælasti hluti basarsins og alveg sama hvað konur baka mikið alltaf selst það upp á fyrstu tveimur klukkutímunum! Í hluta hússins var sett upp kaffihús og hægt var að kaupa nýbakaðar vöfflur og kaffi eða kakó. Langflestir sem komu á basarinn gáfu sér tíma til að setjast niður og njóta góðra veitinga í góðum félagsskap. Eftir farsælan og vel sóttan basar gátum við kvenfélagskonur styrkt Sjóðinn góða um rúmlega 1,4 milljón króna fyrir þessi jól.
Á fyrsta basarnum okkar árið 2014 safnaðist 1,3 milljón sem rann til nýrrar göngudeildar vegna nýrna- og krabbameinssjúklinga á HSu. Árið 2016 söfnuðum við fyrir sjúkrarúmi og lyftu fyrir Skammtímavistun Álftarima 2 og sjónvarpi og leikjatölvu fyrir Kotið, frístundaklúbbi fatlaðra á Selfossi, samtals um 1,4 milljón. Ágóðinn af basar 2018 fór í tækjakaup fyrir sjúkrabíla HSu fyrir um 1,9 milljón króna. Árið 2021 söfnuðust tæplega 1,2 milljón sem fór í uppbyggingu á nýju endurhæfingarúrræði hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Það árið var ekki hægt að bjóða upp á vöfflusölu vegna Covids.
Við þökkum öllum sem komu á basarinn og styrktu okkur með einum eða öðrum hætti. Sjáumst á næsta basar árið 2025.
Kvenfélag Villingaholtshrepps