6.1 C
Selfoss

Heillandi heimur sem hægt er að týna sér í

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Vivian Guðrúnardóttir

Vivian Guðrúnardóttir er 28 ára og uppalin í Reykjavík en býr nú Selfossi ásamt kettinum sínum. Draumur hennar hefur lengi verið að skrifa sögur og gefa út bækur en hún hefur einnig alltaf haft mikinn áhuga á ferðalögum og rekur YouTube rás þar sem hún deilir ferðalögum sínum. Hvort sem ferðalagið er á stað í raunveruleikanum eða í skálduðum heimi. Vivian best við sig á óþekktum slóðum.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Byrjaði fyrir stuttu að hlusta á No Longer Human eftir Osamu Dazai en er enn bara búin með fyrsta kaflann. Kom nýlega heim eftir þriggja vikna ferð til Japans og fyrir ferðina ákvað ég að hlusta á japanskar bækur á meðan ég tek mér göngutúra. Fyrsta bókin sem ég hlustaði á var Norwegian Wood eftir Haruki Murakami sem var búin að vera á listanum mínum í þó nokkurn tíma og hún greip mig alveg svakalega. Sló mjög fast á tilfinningastrengina frá kafla eitt og til enda.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég get lesið hvað sem er eins lengi og sagan og heimurinn í kringum hana ná að heilla mig. Hvort sem það eru fantasíur, vísindaskáldsögur, hrollvekjur, eða skáldaðar ævisögur líkt og No Longer Human eða Norwegian Wood sem eiga sér stað í raunveruleikanum. Ætli það séu ekki bara skemmtilegar sögur og persónur ásamt áhugaverðum staðsetningum sem höfða til mín. Finnst fátt betra en heillandi heimur sem hægt er að týna sér í.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég átti mikið af barnabókum í æsku og það var mikið lesið fyrir mig, oftast var það rétt fyrir háttinn. Ég var mjög fljót að læra að lesa en með tímanum minnkaði lesturinn svolítið fyrir utan lestur þeirra bóka sem ég las fyrir skólann. Það var síðan á unglingsárunum sem ég byrjaði að lesa mér meira til skemmtunar og las fleiri bækur með hverju ári sem leið.

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum.

Í mörg ár taldi ég mig þurfa að hafa alvöru bók í höndunum en það hefur breyst nýverið. Því meira sem ég byrjaði að einbeita mér að skrifa sjálf fór ég að lesa minna og minna en datt svo í hug að hljóðbækur væru kannski lausnin við því. Ég reyni að taka mér daglega göngutúra og ákvað að skipta tónlist út fyrir bækur og sé alls ekki eftir því. Þá fóru göngutúrarnir að verða lengri því ég vil eðlilega klára heilan kafla áður en ég hætti göngunni. Stundum þegar einn kafli er að nálgast tvær klukkustundir í lengd hugsa ég bara: „Jæja, fæturnir mínir munu öskra á mig á morgun en þeir verða bara að þola þetta.” Það hefur samt verið erfitt að koma mér í göngu í desemberkuldanum. Ég forðaðist hljóðbækur í nokkurn tíma. Ég þekki fólk sem hlustar á hljóðbækur meðan það gerir eitthvað annað. En ég hélt að ef ég væri að gera eitthvað annað myndi ég missa einbeitingu á efni bókarinnar. Svo ef ég væri ekki að gera neitt hélt ég að ég myndi bara sofna. Eins og gerðist þegar ég reyndi að hlusta á bók í fluginu heim frá Japan. En hljóðbók og göngutúr eru hin fullkomna blandan fyrir mig.

Áttu þér uppáhalds höfunda eða uppáhalds verk?

Þetta er spurning sem ég á erfitt með að svara. Einu sinni hefði ég sagt Aldous Huxley en ég hef í raun bara lesið tvær bækur eftir hann Brave New World og Doors of Perception (sem er meira ritgerð en bók). Annars hef ég einnig haft mjög gaman af því lesa bækur eftir Douglas Adams, Stephen King, Clive Barker, Richard Matheson og ég á án efa eftir að lesa meira eftir Haruki Murakami.

Hefur bóklestur einhvern tíma rænt þig svefni?

Svo sannarlega. Nýlegt dæmi væri Don Quixote sem er bæði risastór og eldgömul. En hún er skemmtilega skrifuð og mjög fyndin. Því miður á ég ennþá eftir að klára hana, datt alveg út eftir að ég flutti rétt fyrir áramótin í fyrra. En ég ætla mér að taka hana upp aftur við tækifæri og hef alls ekki sett hana niður fyrir fullt og allt.

En að lokum Vivian, hvernig bækur myndir þú skrifa sjálf?

Bókin sem ég er að skrifa núna er persónudrifin saga sem á sér stað í dystópíu og fjallar um fólk sem upplifir sig sem misheppnað og vill finna sinn stað í heimi sem vill ekkert með þau gera. Fyrir mér er þetta mjög persónuleg saga enda er mikið af henni byggð á mínum eigin upplifunum í sambandi við þunglyndi og kvíða. Sagan hefur mallað í höfðinu á mér í mörg ár og farið í gegnum miklar breytingar en ég vona að á endanum nái ég að heilla lesendur með mínum heimi líkt og aðrir höfundar hafa heillað mig með þeirra.

Nýjar fréttir