11.7 C
Selfoss

Félagsstörf í forystu í Hveragerði

Vinsælast

Félag eldri borgara í Hveragerði hefur í haust kastað sér í djúpu laugina með nýjungar á haustmisseri sem nú hefur komið í ljós að var gæfuspor. Stjórnin hafði frá því sl. vor átt í viðræðum við bæjarstjórann um hvort ekki væri hægt að styðja við félagið með að leggja til starfsmann í hlutastarfi á skrifstofu okkar til aðstoðar við skráningar, tölvuvinnslu, almenna upplýsingagjöf ofl. fyrir félagsmenn.

Með kröftugu starfi félagsins síðustu árin hefur allt utanumhald vaxið mjög og lagst þungt á stjórnarmenn sem vinna launalaust. Ákveðið var fyrir haustmisserið að taka í notkun skráningarkerfið Sportabler til að skrá sig á námskeið og viðburði. Þetta er kerfi sem notað er hér fyrir íþróttir og félagsstarf. Þetta var erfitt fyrir marga, sérstaklega þá sem ekki eru vanir snjalltækjanotkun. Stjórnin réði því starfsmann í hlutastarf í einn og hálfan mánuð til að aðstoða við skráningar haustsins.

Nú hefur Bæjarráð Hveragerðisbæjar falið frístundamiðstöðinni Bungubrekku það verkefni að sinna þjónustu og stuðning við Félag eldri borgara i Hveragerði. Frístundamiðstöðin Bungubrekka mun sinna almennri þjónustu við stjórn og félagsmenn, halda utan um skráningarkerfi starfsins og félagatal ásamt því að aðstoða við bókhald og gerð ársreikninga. Frístundamiðstöðin mun einnig taka markvissan þátt í skipulagningu námskeiða, hópastarf og annara viðburða innan félagsins í samráði með stjórn.

Ákveðinn starfsmaður innan Bungubrekku verður sérstakur tengiliður við Félag eldri borgara og verður með fasta viðveru á skrifstofu félagsins og mun ásamt forstöðumanni Bungubrekku sinna verkefnavinnu og tryggja framþróun félagsins. Það sem gerir þessar áætlanir einstaklega spennandi er að Félag eldri borgara í Hveragerði fær ekki aðeins einn starfsmann sér til stuðnings heldur í raun og veru alla frístundamiðstöðina, hennar innviði og mannauð sér til stuðnings.

Frístundamiðstöðin Bungubrekku leiðandi á landsvísu þegar kemur að heildrænu frístundastarf og var á dögunum tilnefnd til íslensku menntaverðlaunana fyrir fagmennsku í frístundastarfi, metnaðarfulla innleiðingu á gæðaviðmiðum og miðlun á starfi sínu innan sem utan Hveragerðis. Frístundamiðstöðin Bungubrekka heldur utan um skipulagt frístundastarf í sveitarfélaginu. Þar má nefna frístundaheimili, félagsmiðstöð, ungmennastarf og ungmennaráð, rafíþróttastarf, sumarstarf barna og unglinga, vinnuskóla og núna Félag eldri borgara í Hveragerði. Allt starfsfólk Bungubrekku getur starfað þvert á allt starfið og tekið þátt í verkefnum, undirbúning, viðburðum og öllu öðru sem snýr að því starfi sem tilheyri frístundamiðstöðinni.

Stjórn Félag eldri borgara í Hveragerði hefur haldið fundi með forstöðumanni frístundamiðstöðvarinnar og starfsfólki um margs konar samstarf til hagsbóta fyrir bæði yngri og eldri Hvergerðinga. Við erum öll mjög ánægð með þessa spennandi lausn og sjáum fyrir okkur margs konar möguleika og verkefni til að styrkja allt félagsstarf í bænum.

Þann 6. desember var haldinn jólafundur Félags eldri borgara á Hótel Örk þar sem 90 manns hlýddu á kynningu á þessu samstarfi sem er farið af stað. Margir lýstu yfir mikilli ánægju með þetta fyrirkomulag.

Félag eldri borgara í Hveragerði,
Frístundamiðstöðin Bungubrekka

Nýjar fréttir