-3.9 C
Selfoss

Ísland óvenju vel skipulagt

Vinsælast

Valgerður E. Hjaltested frá Hæli í Hreppum, starfsmaður Bogfimisambands Íslands (BFSÍ), er nýlega komin aftur til landsins eftir að hafa eytt rúmum 6 vikum sem lærlingur í afreksíþróttamiðstöð alþjóðabogfimisambandsins (World Archery Excellence Centre – WAEC) í Ólympíuborginni Lausanne Sviss. Verkefnið var styrkt af þróunarsjóði International Olympic Commitee sem heitir Olypmic Solidarity (Ólympíusamhjálpin).

Valgerður fór til Sviss í október og kom heim aftur í byrjun desember. Hún bjó í heimavist í háskóla nálægt afreksíþróttamiðstöðinni og á þessum 6 vikum tók Valgerður meðal annars þátt í World Archery Coach námskeiðum, skipulagningu og haldi World Series móts, heimsókn í afreksíþróttamiðstöð Beiter í Þýskalandi, heimsókn á skrifstofur International Olympic Commitee og Ólympíusafnið og heimsókn á skrifstofur World Archery.

Þá þjálfaði hún á námskeiðum og æfingum sem boðið var upp á af World Archery í afreksíþróttamiðstöðinni, lærði af þjálfurunum sem vinna í afreksíþróttamiðstöðinni hvernig þeir skipuleggja og sinna sínum æfingum og íþróttafólki frá byrjendastigi upp á afreksstig. Auk þess lauk Valgerður World Archery þjálfarastigi 3, sem er hæsta þjálfarstig hjá heimssambandinu og aðeins einn annar þjálfari er með þau réttindi á Íslandi.

Valgerður við innganginn á WAEC. Ljósmynd: BFSÍ.

Valgerður segist hafa haft mjög gaman af þessari ferð og tengslunum sem hún myndaði í íþróttinni við fólk alstaðar að úr heiminum. World Archery tekur aðeins inn takmarkaðan fjölda lærlinga á hverju ári í afreksíþróttamiðstöðina og Valgerður var í hópi lengra kominna ásamt fjórum öðrum þjálfurum sem voru frá Brasilíu, Kyrgystan, Bútan og Kýpur.

Þrátt fyrir að Valgerður hafi setið meira en 180 klukkustundir af kennslu sagði hún að hún hafi verið mun betur undirbúin fyrir þetta en hún gerði sér grein fyrir með öllu því sem hún hefur lært á Íslandi, sérstaklega frá samstarfsfólki sínu hjá BFSÍ og hafi þegar kunnað nánst allt sem var kennt. En að hún hafi safnað sér mikilli reynslu og sjálfsöryggi sem þjálfara í ferðinni.

Ásamt því nefndi Valgerður að það hafi verið áhugavert að sjá hvernig námskeiðshald, aðferðafræði þjálfara og skipulag getur verið mismunandi á mismunandi stöðum í heiminum. Þetta víkkaði út reynslu, þekkingu, sjóndeildarhring og sjálfstraust hennar á eigin getu sem þjálfara, ásamt því að vera gífurlega mikilvæg reynsla sem hún telur að eigi eftir að hjálpa henni mikið í starfi.

Valgerður sagði að á meðan á námskeiðinu stóð hafi BFSÍ/Ísland verið nefnt reglubundið af kennurum á báðum þjálfaranámskeiðunum sem jákvætt dæmi fyrir aðra til að fylgja í skipulagi, þjálfaramenntun og þátttöku. Einnig var Ísland notað sem dæmi af starfsfólki World Archery þegar fjallað var um jákvæð dæmi um uppsetningu á regluverki, landsliðsvali og skipulagi landsambanda.

Mynd af lærlingahópnum í heimsókn á skrifstofur IOC. Frá vinstri Daniel Kockel frá Þýskalandi (kennari), Valgerður frá Íslandi, Eliza Tynalieva frá Kyrgystan, Marina Canetta frá Brasílíu, Karma Tshering frá Bútan og Christoforos Pharmakas frá Kýpur.

Þá hafði hún gert ráð fyrir því að starf annarra landssambanda væri mun skipulagðara eða skilvirkara en það var, en eftir að hafa heyrt reynslusögur frá öðrum þjálfurum þá telur hún Ísland eiga óvenju vel skipulagt landssamsband á heimsvísu. Oftast þegar þjálfarar í lærlinga hópnum voru spurðir um hvort að þeir þekktu til ákveðinna atriða í starfi World Archery var Valgerður sú eina sem rétti upp hönd og var hún nokkrum sinnum fengin til þess að kynna þau atriði fyrir hinum lærlingunum.

Verkefnið hjá afreksíþróttamiðstöð World Archery heitir Resident Coach Programme (þjálfara lærlings„prógram“) og var fjármagnað af Ólympíustyrk fyrir þjálfara (Olympic Scholarship for Coaches) sem er styrkur á vegum Ólympíusamhjálparinnar (Olympic Solidarity – OS). Aðeins er mögulegt fyrir Ólympíunefnd hvers lands að sækja um einn slíkan styrk á hverju ári og fáir þjálfarar á Íslandi hafi fengið Ólympíustyrk fyrir þjálfara á Íslandi og er Valgerður sú fyrsta á vegum BFSÍ sem sækir slíkt námskeið. Partur af því að hljóta þann styrk er að viðkomandi heiti því að beita fenginni þekkingu til uppbyggingar íþróttarinnar í viðkomandi landi og hentar því mjög vel sem starfsþjálfun fyrir starfsfólk BFSÍ. BFSÍ leggur mikla áherslu á starfsmannahald og menntun/endurmenntun starfsfólks sambandsins.

Heildarstyrkurinn sem fékkst frá Ólympíusamhjálpinni fyrir verkefninu er ekki þekktur þar sem að styrkurinn er að mestu greiddur til afreksíþróttamiðstöðvar WAEC vegna kostnaðar við lærlingana s.s. húsnæðiskostnaðar, þjálfara, upphaldi, flugi og tilheyrandi þar sem verkefnið er á vegum WAEC en áætlað er að styrkurinn fyrir verkefninu hafi verið á eða yfir aðra milljón.

Nýjar fréttir