1.1 C
Selfoss

Framkvæmdir að hefjast við nýjan miðbæ í Þorlákshöfn

Vinsælast

Í dag skrifuðu Sveitarfélagið Ölfus og fasteignafélagið Arnarhvoll undir bindandi samkomulag um byggingu miðbæjar í Þorlákshöfn. Um er að ræða byggingu á 140 íbúðum, auk verslana og þjónusturýma, hótels, menningarsalar, veitingastaða og fleira.

Samkomulagi miðar við að hönnun hefjist strax og fyrstu byggingarnar verði fullbúin fyrir lok ársins 2025 eða fyrrihluta 2026.

Sérstök áhersla er lögð á vandað miðbæjarumhverfi sem styður við menningu- og mannlíf. Er þar til að mynda ráðgert að vera með fallegt torg sem skapar Þorlákshöfn en sterkari sérkenni. Þannig verður gróður áberandi auk þess sem horft er til nýjunga svo sem skautasvells, skapandi leiksvæða og fl.

„Þorlákshöfn hefur verið að vaxa mjög hratt á seinustu árum. Hér er sótt á forsendum verðmætasköpunar og á næstu 5 árum er fyrirhugað að störfum fjölgi um allt að 500, mest vegna umhverfisvænnar matvælaframleiðslu, vaxandi ferðaþjónustu og nýsköpunar.Við lítum á það sem mikilvægan þátt í uppbyggingaráformum okkar að styðja við það sterka mannlíf sem hér er og auka þjónustu við íbúa og gesti. Þar getur vel heppnaður miðbær leikið lykilhlutverk. Við horfum þar meðal annars til þess að koma upp menningarsal, veitingahúsum, verslunum og hvers konar þjónustu. Það eru því forréttindi að fá til liðs við okkur fyrirtæki eins og Arnarhvol sem deilir með okkur trúnni á þetta samfélag,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Þorlákshöfn.

„Ég held að það hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni hversu mjög Ölfus og Þorlákshöfn hafa styrkst á seinustu árum. Ekki eingöngu fjölgar íbúum heldur eru stór og sterk fyrirtæki að velja sér hér framtíðarstaðsetningu sem skapar sérstöðu og velsæld. Til viðbótar við það þá er Þorlákshöfn ekki í nema rétt um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Sveitarfélagið hyggur á enn frekari sókn og eflingu innviða svo sem með því að byggja hér fjölnotaíþróttahús, byggja nýjan leikskóla, stækka höfnina, byggja íbúðir fyrir eldriborgara og efla enn frekar sundlaugina. Þorlákshöfn er því orðin frábær valkostur fyrir ungt fólk sem vill njóta þessa að ala upp börn í nánu samfélagi við hátt þjónustustig. Á þeim forsendum leggjum við í þetta samstarf,“ segir Karl Þráinsson, framkvæmdastjóri Arnarhvols.

Nýjar fréttir